15.04.1940
Efri deild: 35. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (1406)

8. mál, jarðhiti

*Magnús Gíslason:

Herra forseti! Það gætti nokkurs misskilnings hjá hv. frsm. um brtt. mína. Það er full þörf á að ákveða, að séu meðeigendur fleiri en einn og vilji nota forkaupsrétt sinn, ráði seljandi, hverjum þeirra hann selur. Um þetta hélt ég, að ekki hefðu verið nein tvímæli, þegar á það var minnzt í n. Hv. þm. mótmælir brtt. með þeim rökum, að um nýmæli sé að ræða, en viðurkennir, að hliðstætt nýmæli sé í 4. gr. frv., þar sem ræðir um forkaupsrétt og forleigurétt að hitaorku. Ummæli hans um, að brtt. greiði fyrir braski, styðjast við mjög lítil rök, þegar þess er gætt, að ábúandi jarðar hefir fyrstur forkaupsrétt, en síðan sveitarfélagið, loks ríkissjóður, og þó að meðeigandi verði einnig forkaupsréttarhafi hefir það sjaldan eða aldrei í för með sér, að jörð komist í brask, fyrr en að öllum þessum forkaupsréttarhöfum frágengnum. Hitt er annað mál, hvern áhuga hv. frsm. hefir fyrir þeirri stefnu sósíalista, að ríkið eignist sem flestar jarðir. Ég vil enn minna á það, að ef brtt. mín verður ekki samþ., getur það hindrað, að meðeigandi geti hagnýtt sér hitaorku, hvað sem ákvæðum 4. gr. líður. Og ég vil loks leggja áherzlu á það, að mjög fljótlega verði að taka allt þetta mál til nýrrar og betri yfirvegunar.