15.04.1940
Efri deild: 35. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (1407)

8. mál, jarðhiti

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Það eru tvö atriði í þessu máli, sem ég vildi minnast á. Annað er það, að hv. 1. þm. Reykv. hefir tekið fram hvað eftir annað, að það sé yfirlýstur vilji Alþ., að bændur eigi sjálfir þær jarðir, er þeir búa á. Hann vitnar í ábúðarl., sem sett voru fyrir nokkru. Síðan hafa verið sett fern l., sem ég geri ráð fyrir, að hann geti túlkað öðruvísi, þ. e. l. um að hætta að selja þjóðjarðir, 1. um að heimila ríkissjóði að kaupa jarðir (til þess að bændur ættu að eiga þær, eða hvað?), l. um ættaróðul, sem sett voru að till. Sjálfstfl., og l. um erfðaábúð. Ef túlka ætti stefnu Alþ. í þessum málum, ætti að vitna í hin nýrri l. Því tel ég það rangt hjá hv. þm., að það sé yfirlýstur vilji Alþ., að allir ættu að eiga jarðir þær, er þeir búa á.

Þá er hitt, að mér finnst það undarleg málsmeðferð að hafa málið til meðferðar í n. í 10 daga, gera við það eina litla brtt., segja svo, að frv. sé óundirbúið, gera þurfi brtt. við þessa gr. og hina o. s. frv. Ég hélt, að menn, sem sæju svo glöggt, að frv. þyrfti að breyta og hefðu legið yfir því í 10 daga, hefðu getað komið með einhverjar brtt. Þetta eru ekki sæmileg vinnubrögð og ekki samboðin Alþ., að skrifa undir nál. með fyrirvara og leggja fram eina litla brtt., en lýsa svo yfir því, að frv. þurfi gagngerðra breytinga við.

Ég mun fylgja frv., þó að það standi til bóta, en ég er þó á móti brtt. hv. 11. landsk., því að hún skemmir anda og tilgang frv., að hindra, að þessar jarðir, sem eru landinu mikils virði, lendi í braski, svo að dýrara verði fyrir niðjana að hagnýta þær.