16.04.1940
Efri deild: 36. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (1412)

8. mál, jarðhiti

*Magnús Jónsson:

Ég lýsti því yfir við 2. umr. málsins, að ég myndi, ef málið væri samþ. þá og vísað til 3. umr., bera fram við 3. umr. rökstudda dagskrá um málið, vegna þeirra ástæðna, sem ég þar tilgreindi.

Ég hefi því leyft mér að bera fram rökst. dagskrá um málið. Það nær vitanlega engri átt að afgr. svona frv. án þess að það fái frekari undirbúning en það hefir enn fengið. Hv. frsmn., 2. þm. S.-M., lýsti því þó, að þetta frv. væri vel undirbúið, þar sem málið hafi verið borið fram þing eftir þing. Það er satt, það hefir verið borið fram þing eftir þing. Ég held, að frá 1936 hafi það verið borið fram á hverju þingi.

Á þinginu 1937 var málið leyst á þann hátt, að gerð var ályktun í Sþ. um rannsókn í málinu. 1938 var frv. borið enn fram, en þá mun það hafa verið eitthvað endurskoðað í samræmi við þá ályktun, sem Alþ. samþ. árið á undan. Ég hefi borið þetta saman og ég sé ekki, að gerðar hafi verið neinar breyt., sem nokkru máli skipta. Það eru aðeins örfá atriði, sem eru eins og stílaleiðréttingar, sem gerðar hafa verið á frv. Hinsvegar tók landbn. þessarar d. frv. fyrir og gerði á því nokkrar breyt., sem skiptu meira máli.

Þetta er allur sá undirbúningur, sem málið hefir fengið. Það hefir síðan komið fram óbreytt og fengið fremur litla meðferð í þinginu.

Nú svarar ríkisstj. engu til um það, í hverju rannsókn hennar hafi verið fólgin. Ég hygg, að hún hafi verið sama sem engin. Hún hefir kannske fengið frv. í hendur einhverjum sérfróðum manni, sem hefir litið yfir það. Það hefir því ekki fengið þann undirbúning, sem við hv. 11. landsk. hefðum óskað eftir, að málið fengi, áður en l. væru sett um það.

Mér finnst, að þar sem liggur fyrir ályktun frá Sþ. um að láta rannsaka jarðhita hér á landi, og ennfremur er í 2. lið till. óskað eftir, að ríkisstj. undirbúi löggjöf um þetta efni, þá sé það engin þingleg meðferð á máli að vera að afgreiða það nú óbreytt, svo að segja, án þess að rannsókn hafi farið fram. Það er ekkert, sem bendir til þess, að það sé neinn skaði skeður, þó málið sé látið bíða og því vísað frá með þeirri forsendu, að málið skuli rannsakað og borið fram af ríkisstj., eins og á að vera um svona stórmál.

Svo við tökum aftur vatnal., sem ég hefi vitnað í í þessu sambandi, þá vil ég spyrja: Hvaða vit hefði verið í því að byrja að samþ. eitthvað og eitthvað viðvíkjandi vatnaréttindum eða fossaréttindum, sem einstakir þingmenn hefðu verið að bera fram, þegar við borð lá að láta fara fram nákvæma rannsókn á málinn? Mönnum finnst þetta kannske ekki hliðstætt, því vatnamálið hafi verið flóknara. Það var þó ekki í raun og veru. Þar gátum við mjög farið eftir rannsókn, sem nágrannaþjóð okkar hafði látið fara fram. Norðmenn höfðu þá sett ýtarlega löggjöf um það efni. Það var búið að ræða mikið um það mál og menn vissu, til hvers mátti nota fossana. Um jarðhitann er allt miklu meira á huldu. Við höfum enga löggjöf við að styðjast í þeim efnum. Þetta mál er því sérstaklega vandasamt.

Ég skal ekki ræða frekar um þetta. Ég hefi leyft mér að bera fram rökst. dagskrá, þar sem vitnað er til ályktunar Alþ. 1937 og óskað eftir, að rannsókn fari fram í samræmi við 2. tölul. þeirrar ályktunar. Ég vil leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa rökst. dagskrá.