17.04.1940
Neðri deild: 41. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (1464)

77. mál, ríkisútgáfa námsbóka

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara af þeirri einföldu ástæðu, að í fyrsta lagi var ég alltaf á móti gjaldinu. Úr því að ríkið fór að taka að sér að gefa út námsbækur, átti ríkið ekki að skylda með l. yfirleitt alla, sem börn eiga, til að greiða sama gjald holt og bolt, heldur taka fé til þess með öðru móti.

Fyrst var ákveðið, að gjaldið ætti að vera 5 kr. og mætti fara upp í 8 kr., og bjuggust þm. ekki við, að það yrði strax sett í hámark. Þetta var þó gert, og við það sat þangað til árið sem leið, þegar það var fært niður í 5 kr., og þar við situr. Nú hljóðar þetta frv. um það, að taka megi slíkt gjald allt frá 5 og upp í 7 kr., og býst ég við, að meiningin sé að hafa 7 kr. gjaldið þó að það sé orðað þannig, fyrst ekki tókst að hafa það 8 kr.

Ég hefi alltaf talið, að þetta gjald væri ekki réttlátt, og í öðru lagi er fyrirvari minn um það, að það sé haldið sér við lágmarkið.