05.04.1940
Efri deild: 30. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (1485)

22. mál, skógrækt

*Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Frv. þetta er komið frá Nd. og var þar flutt að tilhlutun hæstv. landbrh. Frv. hafði verið undirbúið af skógræktarstjóra og þrem lögfræðingum, sem landbrh. hafði til þess kvatt. Frv. sjálft er aukin og endurbætt útgáfa af skógræktarlögunum frá 1907 og l. frá 1928 um meðferð skóga og kjarrs. Hafa þessi tvenn lög verið sameinuð og endurbætt. Landbn. hefir farið yfir frv., og höfum við ekki mikið við það að athuga. Var þess full þörf, eftir því sem tímar liðu og reynsla fekkst um þessi mál, að taka skógræktarlögin til endurskoðunar, hefjast handa um að stöðva uppblástur landsins og eyðing skóganna, og taka þau mál fastari tökum en unnt var eftir áður gildandi lögum.

Við leggjum til, að frv. verði samþ. með þessum breyt., sem við höfum lagt til, að gerðar verði á því:

1. brtt. er við 2. gr. Þar er svo fyrir mælt, að skógræktarstjóri skuli hafa leyst af hendi próf við skógræktarháskóla á Norðurlöndum eða við annan skóla jafnstæðan. Við höfum lagt til, að á eftir orðunum „skal hann“ í 3. málsl. komi, ef þess er kostur. Er það gert með tilliti til þess, að landið þurfi ekki að vera skógræktarstjóralaust, þó svo kunni að standa á, að eigi sé völ á manni til skógræktarstjóra með þessi próf.

Þá segir í frv., að skógarverðir skuli aldrei færri en einn í hverjum landsfjórðungi. Við vildum ekki hafa þetta alveg svona ákveðið, heldur að skógarverðir skuli að jafnaði vera einn í hverjum landsfjórðungi. Töldum við, að svo gæti hagað til, að komast mætti af með færri.

Brtt. við 5. gr. er aðeins leiðrétting, að laun skógræktarstjóra og skógarvarða skuli ákveðin í fjárl., að því leyti sem þau eru ekki ákveðin í launalögum, en nú eru aðeins laun skógræktarstjóra og tveggja skógarvarða ákveðin í launal.

Þá kem ég að aðalbrtt. n., en hún er við 17. gr. Í 17. gr. frv. er svo fyrir mælt, að þau héruð, sem eiga land að friðuðu skóglendi, skuli annast smölun og fjallskil innan skógargirðingar á sinn kostnað, og sömuleiðis gera dýraleit og grenjavinnslu á sinn kostnað. Okkur þótti of langt gengið að skylda þá til hvorstveggja skilyrðislaust, svo að við gerðum þá linkind á, að ráðherra skuli heimilt að fyrirskipa, að viðkomandi hreppar annist smölun og fjallskil á sinn kostnað, ef ástæða þykir til að dómi skógræktarstjóra.

Í 28. gr. 2. málsgr. segir svo, að úrskurði matsmanna megi skjóta undir yfirmat. Er ekki tiltekið, hvernig yfirmat skuli skipað. Höfum við bætt því við, að yfirmat skuli skipað 3 dómkvöddum mönnum.

Þetta eru aðalbreyt., sem við gerðum á frv., en auk þess viljum við nm. flytja smávægilega breyt. eða skýringu við 6. gr., en 1. málsgr. hennar hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í skógum eða kjarri má hvorki höggva tré né runna á annan hátt en þann, að höggvið sé innan úr, að skógurinn eða kjarrið sé grisjað.“

Þótti okkur þetta dálítið óskýrt orðað og leggjum til, að greinin hljóði svo:

„Í skógum og kjarri má hvorki höggva tré né runna á annan hátt en þann, að höggvið sé innan úr, þannig, að skógurinn eða kjarrið sé grisjað.“

Okkur þótti réttara að bæta þessu eina orði inn í til skýringar.

Leggur n. til, að frv. verði samþ. með þessum breytingum.