13.03.1940
Efri deild: 16. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

20. mál, atvinna við siglingar

*Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti! Sjútvn. þessarar d. hefir haft þetta frv. til meðferðar og leggur til, að það verði samþ. Hér er um bráðabirgðalög að ráða, sem stj. hefir sett milli þinga til þess að ráða bót á vélstjóraskorti á hinum minni skipum. Að þessi skortur hefir gert vart við sig á þessum tíma árs, sem yfir stendur, er óvanalegt og stafar að mestu leyti af ófriðnum óbeinlínis, þ.e.a.s. vegna hinna auknu siglinga, sem við höfum nú á fiskiskipum, og þeirra mörgu manna, sem fiska á erlendan markað, annars er ekki nýtt, að orðið hafi að veita undanþágur fyrir minni fiskiskip um síldveiðitímann, og hefir það verið á tímabilinu frá byrjun júní til loka október, en vegna þeirra auknu siglinga þarf nú líka að hafa þetta fyrirkomulag á þessum tíma, sem nú stendur yfir.

Það er ekki annað hægt en að fallast á þessar ráðstafanir. Bæði er það, að þær eru fyrir löngu komnar í gildi samkv. bráðabirgðal., og hinsvegar er þjóðarnauðsyn, að fiskiskipin þurfi ekki að liggja í höfn vegna vélstjóraleysis, þegar það er almennt viðurkennt, að á vissri stærð skipa geta menn, sem hafa nokkra þekkingu og reynslu, þótt ekki hafi fullkomið próf, komið að sömu notum og menn, sem eru faglærðir.

Það gæti komið til álita, hvort ekki þyrfti að geta dálitla breyt., til enn meiri rýmkunar en gett er í frv., en n. hefir ekki komið með till. um það, og get ég ekki boðað það í hennar nafni, að hún komi með slíka till. við 3. umr-., en það er þó engan veginn fráleitt að taka það til athugunar.

Annars vil ég segja það almennt um þetta mál, að ræturnar standa nokkuð djúpt að þessum umræðum, sem á hverju ári koma fram hvað það snertir að fá vélstjóra á fiskiskipaflotann. Ég tel, að höfuðorsökin liggi í því, að hin harðsnúnu stéttarsamtök vélstjóra og járnsmiða hafa torveldað aðgang fyrir unga menn, sem vilja ganga þá braut ýmist sem járnsmiðir eða sem vélstjórar, svo mjög að verkstæðum, að afleiðingin hefir orðið sú, að skortur er orðinn á hæfum mönnum, a.m.k. á því sviði, sem hér ræðir um. Það er alkunnugt, að vélameistarar verða að vera vissan tíma á járnsmíðaverkstæðum. Það er einn þáttur í þeirra reynslu.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð að þessu sinni, en vil vekja athygli á, að það er að minni meiningu þarna, sem vandræðin hefjast, sem hafa leitt til þess, að á hverju ári verður að veita svo og svo miklar undanþágur til þess að geta fullnægt eftirspurninni eftir vélamönnum á fiskiskipaflotann, undanþágur, sem eru veittar þeim mönnum, er ekki hafa haft aðstöðu til eða á annan hátt ekki getað uppfyllt lagabókstafinn, en á hinn bóginn taldir hæfir til starfsins.

Sem sagt, við þessa umr. hefir n. ekki neinar brtt. að gera við frv., og ég veit ekki til, að einstakir hv. þm. ætli heldur að gera það. En ég tel ástæðu til að athuga fyrir 3. umr., hvort ekki sé rétt að gera breyt. um, að heimildin verði rýmri en gert er ráð fyrir í frv.