18.04.1940
Efri deild: 41. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (1507)

22. mál, skógrækt

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Frv. þetta var samþ. hér með nokkrum breyt. frá því, sem það kom frá Nd. Nú hefir Nd. sent það aftur og gert á því eina breyt., og er hún sú, að fellt hefir verið niður úr 17. gr. ákvæði um, að dýraleit og grenjavinnslur innan skógargirðinga skuli framkvæmdar á kostnað viðkomandi hrepps eða hreppa. Ég býst við, að landbnm. séu sammála um að fara ekki að spyrna fæti við frv. eins og nú er komið, heldur mæla með því. Ég geri það a. m. k. fyrir mitt leyti og geri einnig ráð fyrir, að hinir nm. muni vera samþykkir þessari niðurfellingu. Það, sem sérstaklega gerir að verkum frá mínu sjónarmiði, að ég mæli með því, er það, að ég tel, að í rauninni hafi engin þörf verið á að setja þetta ákvæði inn í 17. gr., því að í gildandi l. frá 1933 um refaveiðar og loðdýrarækt segir í 2. gr., að hreppar eigi að annast grenjaleitir og grenjavinnslu í heima- og afréttarlöndum hreppsins, og í 6. gr. er getið um það, að allan kostnað af grenjavinnslu og grenjaleit, annan en þann, sem ábúandi óskar að taka þátt í og fá fyrir það yrðlinga í sinn hlut, sem þá voru verðmætir, skuli greiðast af hreppssjóði eða hreppssjóðum, ef fleiri en einn hreppur eru um landið. Mér finnst, að engu sé sleppt úr löggjöfinni, þótt þetta sé fellt niður, þar sem til eru sæmilega skýr ákvæði um þetta í l., þótt ekki sé það tekið hér fram.

Ég vil því fyrir hönd landbn. mæla með því, að frv. verði samþ.