07.03.1940
Neðri deild: 12. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (1512)

47. mál, eignarnámsheimild á nokkrum löndum o. fl.

*Flm. (Emil Jónsson):

Sú yfirlýsing, sem hæstv. forsrh. gaf hér, kemur heim við það, sem ég sagði í minni ræðu og einnig er skýrt frá í grg., að það, sem hefir hindrað það, að hann hafi talið sig geta afhent landið, er orðalag laganna.

Ég vil undirstrika það, að ég hefi farið í gegnum allar umr. um þetta mál frá 1935 og hvergi getað fundið annað en að það hafi verið vilji Alþ., að Hafnarfjörður og Gullbringusýsla ættu að fá þessi lönd og skipta þeim á milli sín. Mér þykir leitt að dregizt skuli hafa, að þetta kæmist á sinn rétta grundvöll, og ég vonaði í lengstu lög, að úr því myndi rætast án þess að breyta þyrfti l., en úr því að það gat ekki orðið, vonast ég til, að Alþ. standi ekki í vegi fyrir þessu máli, því þetta frv. er aðeins flutt til þess að færa í réttan búning þann þingvilja í þessu máli, sem fram kom 1935, en sem þá af einhverjum ástæðum var óskýrt orðað.