03.04.1940
Neðri deild: 29. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (1522)

47. mál, eignarnámsheimild á nokkrum löndum o. fl.

*Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Mér virðist hv. flm. frv. vera óþarflega hræddur við þessa brtt. Það, sem felst í þessari brtt., er einungis sú faglega hlið þessa máls. Flm. gat þess, að hann vissi ekki til þess, að hliðstæð ákvæði hefðu verið sett í l. áður. Ég efast um, að það hafi komið fyrir fyrr, að ríkið afhenti á þennan hátt nokkrum kaupstað land, en ég myndi vera alveg fylgjandi því, að hliðstæð ákvæði þessu yrðu sett, ef ríkið afhenti lönd til sveitarfélaga annarstaðar á landinu.

Það kemur vitanlega ekki til mála, að Búnaðarfélagið skipti sér af því hvaða menn úr Hafnarfirði fá þessi lönd, enda liggur það ekki í till., og mér datt ekki í hug, að hv. flm. myndi skilja þetta þannig. Það er ekki í verkahring Búnaðarfélags Íslands að hafa afskipti af slíku.

Ég vænti þess, að hv. flm. geti látið sér þessa yfirlýsingu nægja.