04.04.1940
Neðri deild: 30. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (1541)

101. mál, jarðir í Ölfusi

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Þetta frv. á þskj. 311 er flutt af landbn., en eins og tekið er fram í grg., þá er frv. flutt eftir tilmælum landbrh., og hafa einstakir nm. óbundnar hendur um fylgi við brtt., sem fram kunna að koma við frv.

Frv. fer fram á að heimila ríkisstj. að kaupa nokkrar jarðir í Ölfusi, til að láta vinna þar að ræktun og öðrum undirbúningi til stofnunar nýbýla.

Ég get ekki látið hjá líða að fara nokkrum orðum um málið almennt, og þá m. a. af því, að það eru nú 4 ár síðan Alþ. samþ. l. um nýbýlamál, svo nú hefir verið starfað eftir þeim 4 undanfarin ár. Það, sem gert hefir verið á þessum 4 árum, hefir eingöngu stefnt að því að stofna einstök nýbýli, aðallega á þann hátt, að jörðum hefir verið skipt, þannig að jarðir, sem hafa verið einbýli áður, hafa verið gerðar að tveimur sjálfstæðum býlum og fjárframlög lögð að verulegu leyti til þeirra. Það hafa verið stofnuð 250–260 nýbýli þessi síðastl. 4 ár. Það hefir eingöngu verið stefnt að því að stofna einstök nýbýli, og þetta hefir verið framkvæmt þannig, að það eru nýbýlaeigendurnir sjálfir, sem annazt hafa allar framkvæmdir. Þeir hafa fengið þá styrki og þau lán, sem ríkið hefir heimilað, og annast svo framkvæmdir hver á sínu býli, án þess að hið opinbera hafi komið þar nokkuð fram. Ríkissjóður er búinn að leggja fram um 800 þús. kr., ef þetta ár er talið með. Hvert býli hefir því fengið um 3000 kr. styrk. Þetta þykir kannske fljótt á litið nokkuð há upphæð, en hún er samt lægri en nokkurstaðar annarstaðar í nágrannalöndum okkar, þegar miðað er við þá upphæð, sem veitt er til hvers býlis, sem stofnað hefir verið.

Reynslan hefir sýnt það á undanförnum árum, að það er ofrausn að hugsa sér með jafnlitlu fjárframlagi, 3–3½ þús. kr. styrk og álíka upphæð sem láni á hvert býli, að stofna nýbýli á alveg óræktuðu landi. Reynslan hefir sýnt okkur, sem að þessum málum höfum unnið, að það er ekki hægt með svo litlu fé, nema þá nýbýlastofnendurnir sjálfir eigi töluvert fé, sem þeir geti lagt fram.

Þegar jörðum hefir verið skipt, þá hefir það oftast verið þannig, að nýbýlunum hefir fylgt eitthvað af ræktuðu landi, hús eða einhver mannvirki. Allmörg nýbýli hafa verið byggð, sem fylgt hefir ræktað tún og jafnvel eitthvað af húsum.

Í l. frá 1936 var í raun og veru gengið út frá því, að hafizt væri handa í stórum stíl um stofnun nýbýlahverfa. Það hefir ekki komið til framkvæmda ennþá af þeim ástæðum, að ekkert fé hefir verið til þess. Umsóknir um styrk til að skipta jörðum og stofna einstök nýbýli hafa verið meiri en hægt hefir verið að sinna, og fjármagn það, sem fyrir hendi hefir verið, hefir verið notað eingöngu til þeirra hluta. Það hefir ekki verið hægt að snúa sér að hinu verkefninu með því fé, sem verið hefir til umráða.

Þetta vildi ég aðeins segja um þær framkvæmdir, sem gerðar hafa verið á þessu sviði á undanförnum árum.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir um að heimila ríkisstj. að kaupa eða jafnvel taka eignarnámi, ef ekki nást samningar um kaup, nokkrar jarðir í Ölfusi, stefnir að því, að hafizt verði handa um stofnun nýbýlahverfa að einhverju leyti, þar sem ríkið annist undirbúning framkvæmda á þessu sviði, ræsi fram landið, leggi vegi um það og annist aðrar nauðsynlegar framkvæmdir. Áframhaldandi framkvæmdum, svo sem húsagerð og fullræktun landsins, er hægt að haga á ýmsan hátt, eftir því, sem ákveðið verður síðar, þannig t. d. að skipta landinu niður í jöfn býli og láta eiganda hvers býlis annast þessar framkvæmdir. Frv. gengur ekki inn á þá hluti.

Það er svo með okkar jarðveg, mýrarnar, sem er okkar dýrmætasti jarðvegur og bezti til ræktunar, að það er ómögulegt að gera hann að góðu akurlendi, hvort sem um er að ræða túnkornakur eða garða, öðruvísi en með því móti að ræsa landið fram í stórum flæmum fyrst, gera aðalframræsluskurðina fyrst og skipuleggja þetta allt í stærri stíl en gert er við ræktun á einstökum býlum. Það hefir staðið ræktunarmálunum mest fyrir þrifum, hversu mikil vöntun hefir verið á fullkominni framræslu á löndum, þó þau væru talin ræktuð. Sé málið tekið þessum tökum, sem hér er gert ráð fyrir, þá hefir það mikla kosti í för með sér, því þá myndi ræktun landsins verða miklu betri en almennt þekkist.

Fyrir þing í vetur skipaði landbrh. 3 manna nefnd, sem í eiga sæti Valtýr Stefánsson, Ingimar Jónsson og ég, til þess að athuga þessi mál. Okkur var falið fyrst og fremst að gera till. um það, hvort hafizt skyldi handa um stofnun nýbýlahverfa eða það, að taka land til ræktunar, sem síðar yrði grundvöllur að stofnun nýbýla. Við höfum athugað þetta nokkuð þann stutta tíma, sem síðan er liðinn, og það hefir orðið álit n., eins og grg. sú, sem fylgir frv., ber með sér, að rétt væri að hefjast handa um fyrstu framkvæmdir í þessum efnum í Ölfusinu. Orsakirnar til þess, að við leggjum það til, er að finna í nál., og sé ég ekki ástæðu til að taka það upp frekar. Ölfusið er fyrir flestra hluta sakir bezt til þessa fallið. Auk þess sem land er þar gott til ræktunar, samgöngur góðar, jarðhiti og möguleikar til að ná í rafmagn, þá má nefna Ölfusforirnar, sem verið er að ræsa fram. Það er ekki minnsti vafi á því, að þar bíða ótrúlega miklir möguleikar til heyöflunar. Það er hugmynd okkar, að það megi fá mikinn stuðning í forunum fyrir býli, sem þarna kunna að verða reist, þar sem ríkið á mikinn hluta af forunum. Hugmyndin er að sameina þær að einhverju leyti við þau hverfi, sem þarna rísa upp með tímanum.

Það er rétt að taka það fram í þessu sambandi, að þessari nefnd eru ætluð fleiri verkefni. Henni er ætlað að athuga um ræktunarmál kaupstaða, þar sem þörf er á að tryggja land til ræktunar. Í þriðja lagi er n. ætlað að taka til athugunar möguleikana á því að endurbæta ræktun eldri túna hér á landi. Eins og ég drap á áðan, þá skortir mjög á það, að framræslan víða sé í því lagi, sem hún þyrfti að vera, en á sínum tíma munu verða gerðar till. um það efni.

Ég tel rétt að taka það fram í þessu sambandi, þar sem mér virðist, að ýmsir séu nokkuð hikandi í að fara þá leið, sem hér er farið fram á, að heimila eignarnám til að komast yfir land til ræktunar í þessu skyni, ef ekki er hægt að útvega það á annan hátt, að ég hygg, að ekki sé hægt að fá slík lönd, nema eignarnámsheimildin sé fyrir hendi, þó ekki komi til þess, að til hennar þurfi að taka.

Það hefir ekki vakað fyrir þeim, sem undirbjuggu frv., að þarna væru teknar allar jarðir og lagðar í eyði. Það er tekið fram, að það séu annaðhvort þessar jarðir eða hluti úr jörðunum. Þarna má fá stórar landspildur án þess að gengið sé nærri jörðunum eða þær þurfi að bíða verulegan hnekki við það. Þeir, sem farið hafa eftir Ölfusinu, munu hafa tekið eftir hinum geysilegu mýrum, sem liggja allar móti suðvestri. Þar virðist vera einhver ákjósanlegasti jarðvegur til ræktunar. Þessar mýrar eru sama sem ekkert nytjaðar, en búfé gengur þar eitthvað. Nú er það svo með sveit eins og Ölfusið, að ég hygg það vera ofrausn að hugsa sér það sem búfjársveit til frambúðar, því þar eru svo miklir möguleikar til þéttrar byggðar. Þar verður að byggja á öðru, nautgriparækt, garðrækt eða jafnvel kornyrkju.

Ég vil leggja áherzlu á, að það mun ekki vaka fyrir þeim, sem að frv. standa, hvorki þeirri nefnd, sem undirbjó frv., landbrh. eða landbn., að farið sé með neinu offorsi af stað, heldur sé aðeins fyrst tekið það land, sem við nána athugun virðist ekki vera þörf fyrir þær jarðir að hafa, sem þarna eru.

Ég skal geta þess, að þetta frv. er m. a. borið fram í því skyni, að hægt sé að beita þeim vinukrafti, sem ekki hefir nein atvinnuskilyrði, eins og t. d. margt fólk í Rvík og víðar, til að vinna að þessu verki. Það er fátt, sem við getum gert betra til að auka verðmæti okkar lands heldur en að vinna að framræslu mýranna. Við vitum ekki enn, hvílíkur fjársjóður þar er. Við vitum það ekki fyrr en búið er að taka nokkur hundruð hektara, ræsa þá fram og gera þeim allt það til góða, sem hægt er, og sjá, hvernig þeir breytast þá. Slíkt er ekki hægt að gera nema hið opinbera hafi framkvæmdir í þessum efnum, og þegar fjöldi manna er atvinnulaus og erfiðleikar miklir á að útvega aðflutt efni til ýmsra framkvæmda, þá virðist sjálfsagðast að vinna að slíkum framkvæmdum sem þessum.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en ég óska eftir, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr., en ég geri það ekki að till. minni, að því verði vísað til n., þar sem landbn. flytur það.