12.04.1940
Neðri deild: 34. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

101. mál, jarðir í Ölfusi

*Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Landbn. hefir borið fram tvær brtt. við þetta frv. við þessa umr., og ætla ég fyrst að lýsa brtt. á þskj. 437, þó að hún sé seinna komin fram. Hún er um það, að breyta nokkuð 1. gr. frv. Í frv. eins og það er nú er tekið fram, að ríkisstj. sé heimilt að kaupa Hvamm, Kirkjuferju með hjáleigu, Þórustaði, Árbæ og Helli í Ölfushreppi í Árnessýslu, eða hluta úr þessum jörðum. Við nánari athugun hefir landbn. orðið ásátt um að mæla með því að fella burtu heimildina til að kaupa Þórustaði, Árbæ og Helli, en heimila ríkisstj. aðeins að kaupa tvær hinar fyrst töldu jarðir, Hvamm og Kirkjuferju. Þessi afstaða n. byggist á því, að á þessum tveim jörðum muni sýnilega verða hægt að fá nægilegt landrými til þess að byrja að rækta landið í allstórum stíl, og n. þótti ekki ástæða til að láta heimildina ná lengra en þörf krefði, og þar sem það líka er vitanlegt, að ríkið myndi alls ekki fara að kaupa upp allar þessar jarðir, heldur aðeins þann hluta þeirra, sem nauðsyn bæri til, þá virtist landbn. ekki þurfa að láta þessa heimild ná lengra en til þessara tveggja jarða, sem eru langstærstu jarðirnar á þessu svæði, og skilyrði til að taka þar land til nýræktunar munu vera hin beztu að öllu leyti. Í sambandi við þetta vil ég geta þess, að landbn. hefir líka nokkuð athugað Ölfusforirnar. Arnarbæli, sem er kirkjujörð og prestssetur, á mikinn hluta af Ölfusforunum. Nú er verið að gera þarna mikla framræslu og hlaða flóðgarða, til þess að veita vatni á landið. Með þeim aðgerðum mun heyfengur aukast mjög mikið í Ölfusforunum. Landbn. álítur, að í sambandi við þau nýbýli, sem ætlazt er til að komi upp á því landi, væri sjálfsagt að hagnýta Ölfusforirnar nokkuð líka. Landbn. hefir nú fengið upplýsingar um það, að þegar Arnarbælisprestakall verður veitt næst, verði tekinn undan því nokkur hluti af Ölfusforunum, sem eru ágætis engjalönd. En ef svo hefði ekki verið, að kirkjumálaráðun. hefði þegar ákveðið þetta í samráði við biskup landsins, myndi landbn. hafa borið fram till. um það, að hægt væri að taka afnotarétt á forunum af Arnarbæli; það þótti alveg sjálfsagt, því að þessi nýbýli verða að langmestu leyti að byggjast á engjunum þar í Ölfusinu, sem gefa mikinn heyfeng. — Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa brtt.

Þá hefir landbn. borið fram brtt. á þskj. 371, um það, að nýrri gr. verði bætt inn í frv., þar sem ríkisstj. er heimilað að verja úr ríkissjóði allt að 150 þús. kr. á árinu 1940, og 200 þús. kr. á árinu 1941, til að þurrka landið og til vegagerðar. Það, sem fyrir n. vakir með þessu, er, að þessi heimild verði fyrst og fremst notuð til þess, ef mikið atvinnuleysi hlýzt af völdum styrjaldarinnar, að þarna verði hægt að hefja aðgerðir til að koma upp nýbýlum. Landbn. væntir þess, að Nd. geti fallizt á þessa brtt. Þetta kom að nokkru leyti fram í sambandi við umr. um fjárl., og sé ég ekki ástæðu til að lengja mál mitt að svo stöddu með því að ræða meira um það.

Ég sé, að á þskj. 408 er brtt. við þetta frv. frá hv. 8. landsk. og hv. þm. Ak. Ég ætla eigi að ræða um þá brtt. fyrr en flm. hennar hafa mælt fyrir henni, og mun ég þá láta máli mínu lokið.