12.04.1940
Neðri deild: 34. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (1554)

101. mál, jarðir í Ölfusi

*Pétur Ottesen:

Ég hefi nú tvisvar fallið frá orðinu í umr. um þetta frv., vegna þess að fundartíminn var á enda og ég vildi ekki hefta það, að málið næði fram að ganga. Ástæðan til þess að ég kvaddi mér hljóðs, er sú, að í grg., sem fylgir frv., er þess getið, að einstakir nm. hafi óbundnar hendur um einstakar gr. þess. Það er skylt að koma fram með ástæður fyrir því, að þessi fyrirvari var settur í grg. Mín skoðun um framtíð landbúnaðarins hér á landi er yfirleitt sú, að landbúnaðinum muni vera bezt borgið með því, að sem flestir þeirra manna, er hann stunda, geti verið sjálfstæðir sjálfseignarbændur. Mér virðist reynslan hafa sýnt það. Með því móti ætti það að verða bezt tryggt, að umbætur þær, sem gerðar væru, bæði í jarðrækt og húsabyggingum, og sem eru alveg nauðsynlegar og óumflýjanlegar, kæmu að verulegum notum til þess að geta haldið sveitunum við og rekið þar búskap þannig, að framtíð sé í. Það er út frá þessari skoðun og þeirri reynslu, sem fengizt hefir í þessum efnum, sem ég vil ræða um málið. Ég hefi þá grundvallarskoðun á frv. þessu, að það sé frekar hreint og beint til þess að ganga á snið við það, sem bezt tryggir öryggi og framtíð sveitabúskaparins, þegar aftur er gengið inn á þá stefnu, að ríkið fari að kaupa upp jarðir, til þess að þeim mönnum fjölgi, sem eru leiguliðar. Á þeim tímum, sem nú standa yfir og verið hafa undanfarið, hefir ákaflega stríður straumur af fólki legið frá sveitum landsins til kaupstaðanna, og ef slíkur hugsunarháttur á eftir að ríkja lengi enn með þjóðinni, sem fram kemur í því, að mikið af fólki flyzt úr sveitum landsins, þá er ég alveg sannfærður um það, að styrkustu stoðir sveitanna og menningarinnar þar hætta að rísa undir þunganum, í stað þess að menn eigi jarðnæði sjálfir, því að með þeim hætti standa menn miklu betur að vígi en ella. Slík aðstaða í sveitum landsins vekur traust hjá mönnum og tilfinningar fyrir þeirri jörð, sem oft og löngum hefir gengið að erfðum frá manni til manns.

Ég vildi láta þetta koma hér fram í sambandi við þá grundvallarskoðun, sem ég hefi á þessu frv.

En hinsvegar hefir orðið nokkur breyt. á því við meðferð landbn., og ég get lýst því yfir, að ég hygg, þrátt fyrir þá skoðun, sem ég hefi á stefnu þessa frv., að með tilliti til þess, hve mikil nauðsyn er á því að reyna að snúa þessum straumi við eða a. m. k. að stöðva hann, geti ég gengið inn á það sem lið í þeirri tilraun. Eins og kunnugt er, þá er fjöldi einstaklinga og fjölskyldumanna, sem nú eru komnir í kaupstaðina, sem hafa þar ekki neitt verkefni og eru alveg að veslast út af í þeim ömurlegu kringumstæðum að verða að standa augliti til auglitis við atvinnuleysið og sjá gersamlega enga leið til að bjarga sér út úr því.

En verði sú heimild veitt, sem hér um ræðir, get ég sérstaklega greitt henni atkv. einmitt vegna þess, að mér virðist, að þau skilyrði, sem óhjákvæmilega þurfa að vera fyrir hendi til þess að nýbýlabúskapur geti blessazt, séu þarna til staðar. Þessi skilyrði eru eitt af þrennu: Í fyrsta lagi, að þar, sem hefja skal slíkan búskap, sé þegar í upphafi fyrir hendi nokkuð af ræktuðu landi. Í öðru lagi, að þar sé um einhverja aðra atvinnu að ræða, sem geti hjálpað mönnum til þess að fleyta sér yfir erfiðleika frumbýlingsáranna, t. d. að þar sé hægt að stunda sjósókn eða eitthvað slíkt. Í þriðja lagi, að öll aðstaða sé svo góð, að mönnum sé jafnan tryggt, að þeir hafi þegar frá upphafi nokkra ræktun við að styðjast, og þau skilyrði eru þarna fyrir hendi með því að hagnýta hinar svokölluðu Ölfusforir, þar sem það er tryggt með nýrri byggingu prestssetursjarðarinnar Arnarbælis, að allstór hluti þeirra verði til afnota fyrir nýbýlabúendur, og jafnframt er allsennilegt, að þeir menn, sem kynnu að fást til að reisa nýbýli á landinu þar, ef samningar nást um, að þær jarðir, sem nefndar eru í frv., verði keyptar, eigi kost á að nota sér það land, er gefur af sér nautgæft hey og annað kjarngott fóður. Ég tel, að eitt hinna 3 skilyrða, sem ég nefndi að þyrftu að vera fyrir hendi til þess að nýbýlabúskapur geti blessazt, sé þarna fyrir hendi, og þá vil ég ekki standa í vegi fyrir því, heldur taka höndum saman við þá menn, sem nú vilja gera þessa tilraun, þrátt fyrir það, þó að stefna mín og sannfæring beinist í þá átt, að nýbýlabúskap eins og öllum búskap landsmanna sé bezt borgið með því, að hver bóndi eigi sjálfur það land, sem búrekstur er rekinn á.

Ég þarf ekki að hafa þessa ræðu lengri, en mun fylgja frv., ef þær breyt. verða samþ., sem hv. frsm. landbn. hefir minnzt á. Þær eru um heimild fyrir ríkisstj. til að verja í þessu skyni 150 þús. kr. á yfirstandandi ári og 200 þús. kr. á næsta ári. Sú fjárveiting er engan veginn bundin við kaup á jörðum, heldur sem styrkur til nýbýlakaupa, hvort sem þau eru reist á landi, sem ríki og bæjarfélög eiga eða einstakir menn. Þetta vildi ég láta koma fram, því hér gæti verið um að ræða heimili fyrir atvinnuleysingja og yrði framtíðarlausn á þessum málum, að því er snertir að skapa fleiri mönnum möguleika til þess að reka sjálfstæða atvinnu í landinu.