15.04.1940
Neðri deild: 36. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (1557)

101. mál, jarðir í Ölfusi

*Sigurður Kristjánsson:

Þó að mál þetta sé nýtt í því formi, sem það kemur hér fyrir hæstv. Alþ., þá er það í raun og veru gamalt mál. Það er ákaflega mikið ágreiningsmál og hefir lengi verið, hvort ríkið ætti að halda áfram að leggja stund á að ná í sína eign jarðeignum þeim sem nú eru í einstaklingseign bænda. Það hafa komið fram margar tilraunir í mörgum formum til þess að ná jarðeignum úr sjálfsábúð, og þetta mál er áframhald af þeim tilraunum.

Ég ætla ekki að fara langt út í það mál, hvaða þýðingu það muni hafa fyrir búskap hér á landi, ef þessi stefna heldur óheft áfram, að ríkið leggi undir sig jarðeignirnar og geri bændur að ríkisleiguliðum. Ég hefi áður haft tækifæri til að minnast á þetta og sýna fram á með óyggjandi rökum, að það hefir verið svo, að sjálfseignarbúskapur hér á landi hefir borið miklu meiri búskapanárangur heldur en leiguliðabúskapur, og einnig, að sá mikli fólksstraumur, sem nú um skeið hefir verið úr sveitunum, og sá mikli leiði, sem virðist vera í mönnum við það að reka búskap hér í landinu, geti ekki fengið betri byr heldur en með því, að menn séu leystir þannig frá jarðeignunum með því að þeir séu ekki lengur eigendur þess lands, sem þeir byggja og yrkja. Það er of langt mál að fara að rekja þetta nú og óþarft að gera það, vegna þess að ég hefi áður gert það. En minna má á, að hér á þingi hefir með l. verið bannað að selja mönnum ríkissjóðsjarðeignir. Það hefir verið ákveðið að láta ræktunarstyrkinn verða að einskonar eignaítaki ríkisins í jörðum. Og það líður aldrei svo nokkurt þing, að ekki komi fram till. um, að ríkið kaupi fleiri eða færri jarðir bænda eða taki eignarnámi, ef þær fást ekki með góðu móti. Ég er sannfærður um, að það má ekki seinna vera að spyrna á móti þessari óheillastefnu.

Inn í þetta blandast svo annað mál, hið svo kallaða nýbýlamál. Maður horfir upp á fjölda jarða fara að hálfu eða öllu leyti í eyði, sem þó eru vel eða sæmilega í sveit settar, vegna búskaparörðugleika. En á sama tíma er verið að verja stórfé til þess að styrkja menn til búskapar á smáblettum, kollublettum, víðs vegar um landið, þar sem engin skilyrði eru móts við það, sem er á stærri jörðum, til þess að framfleyta fjölskyldu. Þetta álít ég óheillavænlegt öfugstreymi, í stað þess að reyna að láta menn haldast á þeim jörðum, sem veita öll gögn, sem búskapnum eru nauðsynleg, að fara að kaupa menn til þess að setja sig niður á smábletti, þar sem lítt hugsanlegt er, að nokkurn tíma geti þrifizt sjálfstæður búskapur, nema fyrir blásnauða aumingja og jafnvel þurfamenn.

Nú er þetta frv. áframhald af þessari stefnu. Hér er það meiningin, að ríkið fari að leggja í að kaupa upp jarðir eða taka þær af mönnum eignarnámi, ef þær fást ekki með góðu móti. Svo á að búta þær niður í nýbýli. Og hvaða skilyrði eru til þess, að þetta geti orðið til hagsbóta fyrir sveitabúskapinn? Á þessum slóðum hefir það verið eitt mesta vandamál bænda, hve örðugt hefir verið fyrir þá að koma búsafurðunum í verð. Þeir hafa með sérstakri svo kallaðri skipulagningu verið teygðir út á þá braut að leggja svo að segja eingöngu áherzlu á mjólkurframleiðslu, en markaðurinn fyrir þessa vöru hefir þrengzt meira og meira og söluörðugleikarnir valdið því, að þessar búsafurðir hafa fallið stórkostlega í verði fyrir seljendur, þó að neytendur þyki nú greiða verulegt verð fyrir þær vörur.

Nú er það mjög merkilegur hlutur, að mitt í vandræðunum með að koma þessum búsafurðum í verð svo viðunandi sé, til þess að bændur geti haldið búum sínum, — á sama tíma er verið fyrir hönd ríkisins að taka það ráð að gera ráðstafanir til þess að setja nokkra menn niður í túnfótinn hjá þessum bændum, sem fyrir eru og ekki geta selt mjólk sína viðunandi verði, og þeir eiga, skilst mér, að lifa eingöngu af því að selja mjólk og rækta garðávexti. Það á að styrkja þessa menn og setja þá niður til þess að gera þá framleiðslu, sem fyrir er, enn arðminni, og hjálpa þeim, sem fyrir eru, með því að bæta við nýjum keppinautum á mjólkurmarkaðinum. Ég undrast, að þessi hugsun skuli komast inn í höfuð á mönnum. Og þó að þetta frv. eigi að vera flutt til hagsbóta fyrir sveitirnar, þá munu bændur í nágrenni þessara frumbýlinga ekki telja sér annan verri greiða gerðan en einmitt þetta. Og það er eðlilegt, að þeir menn, sem eru í vandræðum með að selja afurðir af jörðum sínum, telji það ekki til hagsbóta fyrir sig að fá flokk manna í nágrennið, sem nær eingöngu á að draga fram lífið með því að keppa við þá á þessum þrönga markaði. Það er flutt sem meðmæli með þessu nýbýlaformi, að það þurfi að beina fólksstraumnum út úr kaupstöðunum og til sveitanna.

Nú held ég, að það sé alveg víst, að það sé ekki landið, sem fólkið skortir til þess að reisa bú. Landkostir eru hér svo miklir og nægilegir. Enda væri ákaflega mikill barnaskapur að halda, að það mundi hjálpa í þessu efni, þó að ríkið gengist fyrir eigendaskiptum á jörðum með því að sölsa þær undir sig frá bændum. Þetta, að búum fjölgar ekki í landinu, er ekki af því, að menn hafi ekki löngun til að búa, heldur af því, að það eru margir örðugleikar í sambandi við það; það er dýrt allt, sem til þess þarf, bæði bústofn og áhöld. En að ríkið fari út í jarðakaup til þess að greiða fyrir þessu, held ég að sé algerlega misráðið. Og ef mönnum dettur í hug, að það geti orðið til hagshóta fyrir sveitirnar, ef hægt væri að múta mönnum til þess að flytja úr kaupstöðum í sveit til þess að reisa bú, og eins og sumir hafa kallað það í mín eyru, að fá vandræðalýðinn í kaupstöðunum, sem þar er til sveitarþyngsla, til þess að fara út í sveit og reisa þar bú, þá held ég, að það sé ákaflega mikill og háskalegur misskilningur. Ég hygg, að þeir, sem eru vandræðamenn í kaupstöðum, verði það ekki síður í sveit, því að vandræðamenn verða alstaðar vandræðamenn, og í þessu tilfelli bætist það við, að þeir kunna ekkert til búskapar í sveit. Og þegar menn í sveit, sem kunna tökin á sveitabúskapnum og hafa reynsluþekkingu á honum, hrekjast frá jörðunum vegna búskaparörðugleika, má geta nærri, hvernig fer fyrir þeim, sem eru fákunnandi í þessum sökum og hafa aldrei kunnað að bjarga sér annarstaðar. Ég held því, að slíkur fólksflutningur til sveitanna úr kaupstöðunum yrði til þess að stofna til þess, að sveitarómagar úti í sveit og vandræðamenn yrðu þar á hverri þúfu. En mikið skal til mikils vinna. Ég sé, að hv. landbn. leggur til, að á þessu ári verði heimilað að verja af ríkisfé 150 þús. kr. og á næsta ári 200 þús. kr. bara til þess að leggja vegi og gera skurði um þetta land, sem á að stofna þessi nýbýli á. Svo á líklega að setja niður á þetta land vandræðalýð kaupstaðanna með enga þekkingu á búskap. Það lítur ekki út fyrir, að það sé knappt um fé í ríkissjóði, þegar nota á það til þessara hluta.

Mér finnst í þessu efni það vera hvorttveggja jafnfráleitt, að ná jarðeignum frá bændum til þess að setja niður á það land hálfgerða vandræðamenn, þó við allt of þröng landskilyrði, og eins hitt, að ætla sér að fjölga fólki í sveitunum með því hálfgert að kaupa ýmiskonar vandræðalýð úr kaupstöðunum til þess að fara út í sveitirnar til að reisa þar búskap. Ég er því alveg andvígur þessu frv., og það þó að mér sé ljóst, að mikil nauðsyn sé á að leita skynsamlegra ráða til þess að menn geti haldizt í sveitum, og þrátt fyrir það, þó að mér sé einnig ljóst. að það er allt of margt af því fólki hér í landinu, sem ekki fæst beinlínis við framleiðslustarfsemi. Því að ég er sannfærður um, að þetta ráð, sem hér á að finna, verður mest til ófarnaðar fyrir sveitirnar og kostnaðar fyrir ríkissjóð.