15.04.1940
Neðri deild: 36. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (1559)

101. mál, jarðir í Ölfusi

*Eiríkur Einarsson:

Ég skal játa, að tilefni það, sem ég og hv. þm. Ak. höfðum til þess að koma með brtt. á þskj. 408, er að mestu fallið niður með brtt. landbn. á þskj. 437, þar sem sleppt er mörgum jörðunum, sem taka átti eignarnámi samkv. frv. Þegar heimildin er aðeins bundin við tvær jarðir, Hvamm og Kirkjuferju með hjáleigu, þá virðist mér, að hugmyndin um að taka stórt landsvæði til ræktunar sé allmjög skert. Jarðirnar Hellir og Árbær, sem sleppa á samkv. brtt. landbn., eru sízt verri til ræktunar en þær tvær jarðir, sem eignarnámsheimildin nær til, ef brtt. verður samþ.; auk þessa má benda á, að svæðið, sem hugmyndin er að rækta, verður miklu sundurlausara en það mun hafa verið hugsað, ef jörðum þessum verður sleppt. Annars get ég virt það við hv. landbn., að hún skyldi draga þessar jarðir ásamt Þórustöðum út úr, því að bændurnir, sem þarna búa, voru mjög hræddir um, að réttur þeirra yrði að meira eða minna leyti skertur, ef til eignarnáms hefði komið á jörðum þessum.

Hv. frsm. landbn. sagði, að mikið af landi jarða þeirra, sem gert er ráð fyrir að kaupa eða taka eignarnámi, sé óræktanlegt, og það geri jarðirnar verðminni. Þessu er því að svara, að hið líttræktanlega víðlendi jarðanna skapar einmitt verðmæti þeirra. Þarna eru landkostir góðir fyrir sauðfé og hross, enda þótt landið virðist fljótt á að líta arðlítið.

Þrátt fyrir það, sem ég nú hefi tekið fram, sé ég ekki ástæðu til að taka brtt. á þskj. 408 til baka. Mér finnst rétt, að um hana gangi atkv. Ekki af því, að ég telji það svo mikla skerðingu á eignarrétti manna, hvort þessar tvær jarðir verða teknar eða ekki. Heldur vegna hins, að mér þykir rétt, að það komi skýrt fram, hvort Alþingi vilji leggja út á þá braut, að taka jarðir af bændum með þessu móti.

Það er ekki langt síðan ríkið keypti Kaldaðarnesflóann; þar er því mikið land til ræktunar. Þegar sú eign var keypt, var ríkinu veitt heimild til þess að kaupa hana, ef samkomulag fengist, en hér á að taka jarðirnar eignarnámi, náist ekki samkomulag um sölu. Ég vil því spyrja: Er ástæða til að ganga lengra en leita hófanna um kaup á þessum jörðum hjá Ölfusingum? Mér finnst það ekki. Það er aldrei nema rétt, að tímarnir breytast og mennirnir með, en það er ekki langt síðan sú skoðun var uppi, að bændurnir ættu að eiga jarðir sínar sjálfir, og brautryðjandi þeirrar stefnu var hinn kunni landbúnaðarvinur Þórhallur Bjarnarson biskup. Mér finnst því sjálfsagt og rétt, að íhugað sé vel áður en lagt er út á alveg nýjar brautir í þessum málum.

Deila sú, sem risið hefir á milli hv. frsm. landbn. og hv. 6. þm. Reykv. um það, hvort stuðla beri að því, að stofnað sé til nýbýla í landinu á sama tíma og jarðir fara í eyði, er í sjálfu sér einkennileg. Ég mun að sjálfsögðu ekki fara að blanda mér inn í þessar umr., en það eitt vil ég þó segja, að mér finnst ekki nema rétt og sjálfsagt, að stefnt sé að því, að býlum fjölgi í landinu. Hitt, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði, að nýbýlin væru dýr og víða erfitt til afkomu á þeim, er að sjálfsögðu íhugunarvert.

Ég vil svo að síðustu skjóta því til hv. þm., hvort þeim finnist, að frumskilyrðunum fyrir því, að stór nýbýlabyggð geti þrifizt þarna austur frá, sé fullnægt, eins og t. d. samgöngumálunum o. fl. Eins og kunnugt er, þá fór ég fram á það í vetur, að þetta yrði athugað, en það virtist ekki fá hljómgrunn hjá hv. þm.