15.04.1940
Neðri deild: 36. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í B-deild Alþingistíðinda. (1560)

101. mál, jarðir í Ölfusi

*Sigurður E. Hlíðar:

Ég finn mig knúðan til þess að segja hér nokkur orð, þar sem ég er meðflm. að brtt. þeirri á þskj. 408, sem vakið hefir hér nokkrar umræður. Það, sem vakti fyrir mér, er ég gerðist meðflm. að brtt. þessari, var það, að mér var kunnugt um, að bændur þeir, er búa á þeim jörðum þarna eystra, sem talað er um að kaupa eða taka eignarnámi, kvíða því mjög, að jarðirnar verði teknar af þeim. Sérstaklega tók mig sárt til eins bóndans þarna; það er bóndinn í Árbæ, því að hann hefir búið þarna lengi. Ef skipta ætti þeirri jörð í 4 hluta og hann ætti að hafa einn partinn, þá held ég, að það yrði þröngt fyrir dyrum hjá honum með 300–400 fjár, 40 nautgripi og allmargt hrossa. Já, mig tekur sárt til þessa manns, og yfirleitt til allra þeirra, sem talað hefir verið um að taka jarðirnar af, og fyrir því vil ég umfram alla hluti, að leitað sé samkomulags við mennina um kaup á jörðunum, ef brýn þörf er á að fá þær vegna almenningsheilla, auk þess, sem ég er eindregið á móti því, að jarðir séu teknar eignarnámi af mönnum, því að ég tel, að rétt sé, að bændur eigi jarðir sínar sjálfir. Þegar ég var ungur, var það kappsmál allra bænda og bændasona, að geta orðið sjálfseignarbændur. Ég var og þá á þeirri skoðun, að það væri landi og lýð fyrir beztu, og við það stend ég enn. Mér er með öllu ómögulegt að fella mig við það, sem nú er verið að reyna að koma inn hjá fólki, að hið opinbera eigi að eiga jarðirnar.

Þegar ég gerðist meðflm. brtt. á þskj. 408, voru allmargar jarðir taldar upp í frv., sem átti að mega taka eignarnámi, en nú hefir hv. landbn. flutt brtt. á þskj. 437, þar sem hún leggur til, að heimildin verði aðeins látin ná til tveggja jarða, Hvamms og Kirkjuferju ásamt hjáleigu frá þeirri jörð. Jarðirnar, sem hér var um að ræða, hafa því fækkað að stórum mun, en principið, eignarnámið eða eignarnámsheimildin, stendur óbreytt, og það er einmitt það, sem ég er sérstaklega á móti. Ég vil því með engu móti draga brtt. okkar aftur, heldur láta ganga um hana atkv., svo úr því fáist skorið, hvort þingið er ófáanlegt til þess að hverfa frá eignarnáms-prinsipinu inn á samkomulagsleiðina.

Það má vel vera, að svæði það, sem hér er um að ræða, sé hentugt til þess að koma upp á því nýbýlahverfi, en ég tel eflaust, að það séu miklu víðar til svipuð svæði og þetta, og því sé ég ekki ástæðu til að taka þessar jarðir frekar en einhverjar aðrar, að síðustu vil ég svo aðeins segja þetta: Það er alltaf viðurhlutamikið að slíta menn upp með rótum þar, sem þeir hafa dvalið um langt skeið og óska einskis frekar en að mega dvelja þar áfram. Að gera mönnum, sem lengi hafa verið bústólpar í héruðum sínum, slíkar búsifjar sem þessar, held ég, að eigi að gjalda varhuga við.