15.04.1940
Neðri deild: 36. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

101. mál, jarðir í Ölfusi

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Mér finnst kenna nokkurs misskilnings hjá sumum hv. þm., sem tekið hafa til máls, sérstaklega þó hjá hv. þm. Ak. Hann virtist skilja frv. þetta þannig, að með því væri verið að slá föstu því „principi“ að ná sem flestum jörðum undir ríkið. Þetta er ekki rétt, heldur er hér verið að vinna að því, að koma skipulagi á byggingar fyrir fólk, sem þarf að komast upp í sveit úr atvinnuleysi kaupstaðanna. Það er því sízt ástæða fyrir þennan hv. þm. að vera að standa hér upp og fara að lofa sjálfseignarábúð; slíkt kemur þessu máli bara ekkert við. Ég mun því ekki fara frekar inn á þetta nú.

Það gegnir annars nokkuð öðru máli um hv. þm. Borgf. og þennan hv. þm.; þeir virðast hafa nokkuð mismunandi skoðanir á málunum. Hv. þm. Borgf. hefir og þá bjargföstu skoðun, eins mg hv. þm. Ak. segist hafa, að bezt sé og farsælast, að bændurnir eigi jarðir sínar sjálfir. Þó fellst hann á frv. þetta, segist fullkomlega viðurkenna nauðsyn þess. Þetta sannar ljóslega, að hv. þm. Borgf. er að miklum mun víðsýnni en flokksbróðir hans, hv. þm. Ak. Hv. þm. Borgf. skilur það, eins og allir skynbærir menn, að það er ekki hægt að gera skipulagsbundna ræktun og undirbúa byggingu nýbýla, nema því aðeins, að ríkið hafi umsjón með ræktun landsins og skipulagi nýbýlanna.

Þetta er nákvæmlega sama og þegar tekið er örfoka land til ræktunar. Það er ómögulegt að gera það með öðru móti en að landið sé tekið í umsjá ríkisins. Mér virðist það alger óþarfi að vera með umr. um þessi tvö sjónarmið snertandi ábúðarlöggjöfina í sambandi við þetta mál. Ég tók það strax fram, þegar ég hélt mína framsöguræðu í málinu, að það væri ekki meiningin að reka bændurna burt af jörðunum, heldur að taka land, sem hægt væri að taka án þess að skerða um of búrekstur þann, sem fyrir væri á jörðunum.

Hv. þm. Ak. sagði, að hann gæti ekki verið með í því að heimila að taka eignarnámi jarðeignir bænda, nema það væri til alþjóðarþrifa. Ég er sammála hv. þm. um það. Ég tel það virkilega til alþjóðarþrifa, ef við tökum 100 ha. þarna og á nokkrum öðrum stöðum á landinu, ræsum þá fram og þurrkum þá eins og á að þurrka land. Það er ekki nema á örfáum stöðum, að menn vita, hvernig á að þurrka land. Ég er sannfærður um, að þegar búið er að rækta í Ölfusinu svona landspildu, þá verður hún hið ákjósanlegasta sýnishorn fyrir bændurna í kring, þar sem þeir geta séð, hvað hin íslenzka mold gefur mikið, þegar búið er að rækta hana eins og á að gera. Ég þarf ekki að halda fyrirlestur um þetta fyrir hv. þm. Ak., sem er formaður Ræktunarfélags Norðurlands, en ræktunarstöðin þar er einn bezti bletturinn, sem við eigum á landinu.

Það er ekki lítils virði að fá landið vel þurrkað. Það er hægt að tala um það siðar, hvernig eigi að nota það, í hvað mörg býli eigi að skipta því o. s. frv. En landið verður að vera þurrt nokkrum árum áður en byrjað er að vinna það að öðru leyti.

Þó ég hafi dálitla löngun til að fara inn á málið frá öðru sjónarmiði, þá ætla ég ekki að gera það. Ég vil þó taka það fram sem skoðun landbn., að þetta er ekki „princip“-mál út frá því sjónarmiði, hvort jarðir eigi að vera einkaeign eða ríkiseign. Það er aðeins bundið við það einstaka tilfelli, að skapa skilyrði til þess að hægt sé að nota nokkuð af vinnukrafti þjóðarinnar til að vinna af þessu sérstaka verkefni.