01.04.1940
Efri deild: 26. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í B-deild Alþingistíðinda. (1585)

65. mál, ríkisborgararéttur

*Frsm. (Magnús Gíslason):

Allshn. hefir haft þetta frv., sem borizt hefir frá Nd., til athugunar og hefir ekkert við það að athuga. Nefndin athugaði skjöl þau, sem fylgdu umsóknunum, og samkv. þeim uppfylla þessir menn skilyrðin til þess að þeim verði veittur ríkisborgararéttur.

Eftir að frv. var til umr. í Nd. barst ráðuneytinu umsókn um, að norskur maður, Olaf Ingvald Visnes, fái ríkisborgararétt. Þau skjöl, sem fylgja frá Noregi og héðan, bera það með sér, að hann hefir rétt á að fá hér ríkisborgararétt. Hann fluttist til landsins 1909, hefir búið hér síðan og er kvæntur íslenzkri konu. Nefndin leggur til, að honum verði einnig veittur ríkisborgararéttur. En eftir að nál. hafði verið prentað, kemur fram, að nafnið er rangt prentað. Hann heitir Olaf Ingvald Olsen Visnes, en þessu mætti breyta þegar frv. er prentað upp.