11.04.1940
Neðri deild: 33. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í B-deild Alþingistíðinda. (1593)

65. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Thor Thors):

Frá því að þetta frv. var síðast til meðferðar hér í d., hefir Ed. bætt inn í það manni, norskum að ætt, sem dvalið hefir hér á landi síðan 1906 og uppfyllir að öðru leyti öll þau skilyrði, sem lögin krefjast til að útlendingar geti fengið hér ríkisborgararétt. Allshn. hefir því engar aths. að gera við þann mann, en ber sjálf fram brtt. á þskj. 383 um, að Bjarne August Augustsen, afgreiðslumaður í Reykjavík, fæddur í Noregi, fái hér ríkisborgararétt. Þessi maður kom hingað í apríl 1930 og hefir því nú dvalið í 10 ár hér á landi. Það er því enginn vafi, að hann uppfyllir þau skilyrði, sem l. krefjast.

Hv. þm. A.-Húnv. flytur brtt. um, að Oskar Sövik rafveitustjóri á Blönduósi fái íslenzkan ríkisborgararétt. Eins og hv. flm. gat um, kom þessi maður til landsins í maí 1930 og hefir því ekki nú í dag uppfyllt þau skilyrði, sem l. setja um að útlendingar fái íslenzkan ríkisborgararétt. Enda þótt svo sé ástatt, mun n., vegna þess sérstaka ástands, sem skapazt hefir nú síðustu daga, láta þetta mál afskiptalaust frá sinni hendi. N. vildi ekki eiga frumkvæði að því að flytja þessa till. og vill ekki heldur mæla með henni sem slík, en einstakir mn. hafa um hann óbundnar hendur. N. vildi ekki heldur mæla á móti henni, vegna þess sérstaka ástands, sem nú hefir skapazt. Á það má líka líta, að þessi maður mundi að líkindum vera búinn að dvelja 10 ár hér á landi, þegar hann fengi ríkisborgararéttinn, þó að frv. yrði nú í dag samþ. sem 1. frá Alþingi.