19.04.1940
Efri deild: 42. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

65. mál, ríkisborgararéttur

*Frsm. (Magnús Gíslason):

Allshn. hefir athugað frv. eftir meðferð þá, er það hefir fengið í hv. Nd., og hefir n. orðið sammála um að leggja til, að úr því væri aftur fellt ákvæðið um, að Óskari Sövik yrði veittur ríkisborgararéttur. Í desember síðastl. var þetta mál tekið fyrir á þinginu, og féllst hv. Nd. á, að honum yrði veittur rétturinn, en allshn. Ed., er fékk málið síðar til meðferðar, vildi ekki fallast á þetta að svo stöddu, og varð það ofan á hér í hv. d. Ástæður n. voru í fyrsta lagi, að 6 mánuði skorti á, að hann hefði dvalið hér hinn fyrirskipaða árafjölda, þótt allt væri satt, er hann sagði um þetta, og í öðru lagi þótti n. óvíst um heimilisfang hans hér á landi fyrstu árin þrjú, eða 1930–1933, og í þriðja lagi var ekki vitað, að hann hefði þá greitt hér á landi lögboðin gjöld. Auk þess vantaði vottorð yfirvaldanna á þeim stöðum, þar sem hann hafði dvalið, um það, að hann hefði ekki gerzt brotlegur við íslenzk l., en slík vottorð þarf að hafa, bæði héðan og úr heimalandi hlutaðeiganda, til þess að geta öðlazt hér borgararétt. Af þessum ástæðum var þetta ekki samþ. hér í d. Þegar málið kom svo hingað aftur frá hv. Nd., hafði í engu verið bætt um þessa ágalla umsóknarinnar, nema í því, að skemmri tími var eftir af þeim 10 árum, sem maðurinn skyldi hafa dvalið hér á landi, og því taldi n., að enn vantaði skilyrði til þess, að unnt væri að veita réttinn.

En eftir að n. bar fram brtt. sína, hefir nokkuð verið úr bætt verstu ágöllunum á umsókninni. Maðurinn hefir lagt fram vottorð frá nokkrum lögreglustjórum á þeim stöðum, þar sem hann telur sig hafa dvalið árin 1930–1933, um að hann hafi ekki gerzt brotlegur við íslenzk l. Auk þess hefir n. borizt skeyti frá sýslumanninum í Húnavatnssýslu, þar sem hann er nú búsettur, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Óskar Sövik sýndi hér skrifstofunni í dag vegabréf útgefið Osló 16/4 1930 til Íslands, gildandi til 16. apríl 1932. — Jafnframt fullyrðir Sövik undir eiðstilboð hann hvergi átt heimili erlendis eftir að hann fluttist þá hingað og ekki vitað annað en hann ætti heimili hjá Stefáni Runólfssyni, Reykjavík, meðan.

Sýslumaður Húnavatnssýslu.“

Ég skal geta þess í sambandi við yfirlýsingu þá, er hann hefir gefið undir eiðstilboð um að hann hafi ekki átt lögheimili annarstaðar þessi ár, að hegningarvottorð, gefið út í Noregi 1938, er stílað upp á Oskar Sövik, Grytten, Noregi. Af því virðist sem hann hafi þá verið búsettur í Noregi. Þetta getur að vísu, verið að skilja svo, að hann hafi einhverntíma verið búsettur á þessum stað, eða að hann hafi aldrei slítið heimilisfangi sínu og verið búsettur á báðum stöðunum, hér og þar, eða í þriðja lagi, að um annan Oskar Sövik sé að ræða.

Af hálfu rafveitu Austur-Húnavatnssýslu, er hann hefir starfað hjá, hefir verið lagt mikið kapp á að koma því til vegar, að honum yrði veittur ríkisborgararéttur hér, því að mönnum fellur þar vel við hann, telja hann vel til starfans hæfan og vilja ekki missa hann. N. hefir borizt símskeyti frá rafveitunni, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrir hönd rafveitu Austur-Húnavatnssýslu, svo og eigenda hennar, sýslusjóðs Austur-Húnavatnssýslu, Kaupfélags Húnvetninga og Blönduóshrepps, er hér með skorað á Alþingi að veita Oskari Sövik rafveitustjóra. Blönduósi, ríkisborgararétt samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi. Er því að óreyndu treyst, vegna hagsmuna þessa héraðs, að óverðskuldað brauðníð á hendur þessum manni, er náð hefir eyrum þingmanna, hafi á þá þau ein áhrif, er slíku hæfa.“

Af þessu skeyti er augljóst, að þeir, sem hafa manninn í þjónustu sinni, leggja mikið kapp á, að honum sé veittur rétturinn, sjálfsagt vegna þess, að þeir vilja ekki missa hann úr þjónustu sinni. Þó er augljóst af því, sem ég hefi sagt, að skilyrðum samkvæmt l. um ríkisborgararétt er ekki í öllu fullnægt. Fyrst vantar vottorð hlutaðeigandi yfirvalda hér á landi um, að hann hafi dvalið hér allan tímann, og eins um það, hvar hann hafi dvalið. Það er vitað, að bæði árin hefir hann farið utan og dvalið í Noregi 2½ mánuð. Og ef litið er á vottorð lénsmannsins í Grytten, er vafamál, hvort hann hefir nokkurntíma slitið heimilisfangi sínu þar. En með hliðsjón af yfirlýsingu þeirri, er hann hefir gefið undir eiðstilboð, um að hann hafi ekki átt heimilisfang erlendis eftir að hann fluttist hingað, hefir meiri hl. n. fallizt á að taka aftur brtt. á þskj. 473 um að synja um ríkisborgararéttinn. En minni hl., hv. 2. þm. S.-M., hefir ekki viljað fallast á þetta, og till. þessi er því eftir sem áður hans.

Nú er það athugavert, hvort ekki eigi á þessum tímum að fylgja fast fram l. um ríkisborgararétt hér á landi, því að búast má við, að á slíkum tímum leiti hingað margir útlendingar til þess að reyna að fá hér fótfestu. Alþ. verður að standa fast á því, að erlendum mönnum verði ekki veittur slíkur réttur, nema þeir uppfylli öll nauðsynleg skilyrði. Það mætti e. t. v. líta svo á, að það væri ekki vinsamlegt gagnvart frændþjóð vorri Norðmönnum á þessum tímum, er þeir þurfa á öllum mönnum sínum að halda til að verja land sitt, að veita norskum mönnum ríkisborgararétt hér á landi, þar sem það gæti orðið til þess, að þeir fengju ekki tækifæri til að gegna skyldum sínum við föðurland sitt. Þó hefir n. fallizt á að taka brtt. aftur, og stafar það af því, að þó að Alþingi veiti þessa heimild, verða hlutaðeigandi útlendingar að sanna ríkisstj. innan 12 mánaða, að þeir séu leystir frá ríkisborgararétti í landi sínu. Það er því á valdi stj. í Noregi, hvort þessi maður verður leystur frá borgararétti þar. Því teljum við óhætt að heimila þetta.