19.04.1940
Efri deild: 42. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

65. mál, ríkisborgararéttur

*Ingvar Pálmason:

Eins og hv. frsm. allshn. tók fram, hefi ég ekki getað fallizt á að taka aftur brtt. á þskj. 473. Hann rakti málið allýtarlega og viðurkenndi, að það væri frávikning frá gildandi l. að veita þennan rétt. En ég vildi vekja athygli á því, að hér skakkar talsvert miklu, því að manninn vantar vottorð, sem sanni búsetu hans hér fyrstu þrjú árin. Ég álít það skilyrði í l. jafntvímælalaust og önnur skilyrði 1. Mér skildist hv. frsm. byggja afstöðu sína aðallega á því, að hlutaðeigandi hefði undir eiðstilboð lýst yfir því, að hann hefði ekki átt heimili í Noregi þessi ár, en svo er síðari framburður hans, að hann hafi ekki vitað betur en hann hefði átt heimili hjá Stefáni Runólfssyni, en sá framburður er ekki gefinn undir eiðstilboð. Þetta gerir aðstöðu hans allmiklu lakari, því að hann gæti t. d. hafa orðið landshornamaður á þessu tímabili. Svo vantar vottorð frá Stefáni Runólfssyni, sem hann á að hafa dvalið hjá, um að hann hafi átt heimili þar, en það liggur aðeins fyrir vottorð um, að hann hafi unnið hjá Stefáni. En þó að maðurinn hafi unnið hér 7–8 mánuði á ári, farið síðan til Noregs um haustið og komið aftur að vori, þá vinnur hann sér ekki heimili hér með því. Hann segist hafa farið til Noregs í jólaleyfi, og getur það staðizt, því að hann vinnur við rafveitu, og hún hefir líklega hætt að starfa í desember. Hann kemur svo aftur næsta vor. Hann segist hafa dvalið í Noregi ca. 2½ mánuð, en þeir gætu líka verið 3. Við getum ekki fundið neina afsökun fyrir því, að hér sé vikið frá fyrirmælum l. Því vil ég óska þess, að málið verði látið ganga undir atkv. Ég álít, eins og hv. frsm., að okkur beri að framfylgja stranglega fyrirmælum l. í þessum efnum. Það er varhugavert að veita ívilnanir frá l., því að slíkt getur boðið öðru heim.

Þá er vottorðið frá yfirvöldum í Noregi um, að hann hafi ekki framið þar afbrot gegn l. En þar er sagt, að hann hafi átt heima í Noregi árið 1936. Þetta gerir málið ekki auðveldara fyrir manninn. Það eru að vísu möguleikar til þess, að ekki sé hér átt við þennan mann, og vottorðið eigi við annan Sövik. En að öðru ósönnuðu, er rétt að ganga út frá, að vottorðið sé rétt gefið, enda er engin ástæða til að koma með getgátur um þetta. Það getur vel verið sannleikanum samkvæmt, að þessi maður hafi ekki tekið út neina hegningu í Noregi.

Þá vil ég að síðustu minnast á það, sem mér virðist meiri hl. ætla að fljóta á. Hann vill sýna fram á, að ef maðurinn vill öðlast þennan rétt, verði hann að sanna fyrir dómsmrn., að hann sé laus við ríkisborgararétt í Noregi. En þetta kemur ekkert málinu við, þegar Alþ. úrskurðar, hvort fara skuli að l. eða ekki.

Ég veit ekki, hvernig stendur á því skeyti, sem eigendur rafveitunnar á Blönduósi hafa sent þm., vegna einhvers orðróms, sem þeim kynni að hafa borizt til eyrna. Ég hefi ekki heyrt þennan orðróm, en mér þykir leiðinlegt, að eitthvað óhreint skuli liggja á bak við, ef dæma skal eftir líkum, og yfirleitt finnst mér þetta mál sótt meira af kappi en forsjá. Ég tel mjög varhugavert fyrir þingið, þar sem öll gögn vantar til að geta veitt þennan rétt, að sækja málið af svo miklu kappi, þar sem tæplega er þörf á því. Það eru ekki neinar líkur til þess, að rafveitan hætti að njóta starfskrafta þessa makalausa manns. Ég hefi séð bréf frá eftirlitsmanni rafstöðva, og þar segir hann, að þessum manni beri tvímælalaust að veita atvinnuréttindi hér á landi.

Ég get látið þetta nægja, en vil aðeins bæta við, að fyrir allshn. Ed. liggur nú umsókn frá manni, sem heitir Benedikt Nielsen og er fæddur í Danmörku. Hann er búsettur á Seltjarnarnesi, kvæntur íslenzkri konu og á með henni eitt barn. Hann er búinn að vera hér í 11 ár og umsókninni fylgir vottorð frá húsbændum hans um, að hann hafi átt lögheimili hér öll þessi ár. Öll plögg með umsókninni eru í lagi, að undanteknu því, að hegningarvottorð vantar frá Danmörku. Meiri hl. allshn. hefir ekki séð sér fært að veita þessum manni ríkisborgararéttindi, og ég er alls ekki að mótmæla þeirri ákvörðun n. Ég vil aðeins taka fram, að verði þessum Sövik á Blönduósi veitt ríkisborgararéttindi, þá tel ég tvímælalaust rétt af hálfu Alþ. að veita Nielsen einnig réttindin. Ef við berum það saman, hvort er meira atriði, að maðurinn hafi ekki uppfyllt búsetuskilyrði eða vantar vottorð um að hafa ekki verið dæmdur fyrir nein afbrot í föðurlandi sínu, þá virðist mér sízt meiri ástæða til að synja Nielsen um réttindin, þar sem fyrir liggja sannanir um, að hann hafi átt hér heima í 11 ár. Einnig liggur fyrir vottorð frá viðkomandi lögreglustjóra um, að hann hafi ekki verið dæmdur í þessi 11 ár. Þrátt fyrir það er ósannað, að hann hafi ekki verið dæmdur í föðurlandi sínu, en eftir nútíma réttarfarsreglum væri maðurinn búinn að fá uppreisn á þessu tímabili. Frá mínu leikmannssjónarmiði séð skiptir ekki meira máli, þó að þetta atriði vanti til þess að uppfylla ákvæði laganna, heldur en það skilyrði, sem ég tel, að Sövik vanti. Með þessu er ég ekki að segja það, að Alþ. beri að veita Nielsen ríkisborgararétt. En ég lít þannig á málið, að verði Sövik veittur ríkisborgararéttur, yrði Nielsen beittur ósanngirni.

Ég sé ekki ástæðu til að karpa meira um þetta mál. Ég og hv. frsm. allshn. höfum skýrt það svo, að það hlýtur að vera hv. þdm. ljóst. Ég vænti þess, að hv. d. fallist á, að eins og nú standa sakir er mjög varhugavert að víkja frá lagafyrirmælum um þessi atriði. Þess vegna er ekki rétt að veita þessi réttindi, fyrr en öll skilyrði hafa verið uppfyllt af hálfu umsækjanda.