19.04.1940
Efri deild: 42. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (1608)

65. mál, ríkisborgararéttur

*Ingvar Pálmason:

Ég skal fúslega viðurkenna það, að þegar til lagakróka kemur, þá standa þeir betur að vígi hv. 11. landsk. og hæstv. forsrh. heldur en ég. Þó að ég gangi inn á, að það geti verið eðlilegt, að útlendingar, sem flytjast hingað, gæti þess ekki í byrjun að útvega sér lögheimili hér og geti ekki unnið sér inn réttindin á þeim tíma, þá lít ég þannig á, að það verði að koma þeim sjálfum í koll, en ekki vera tekið gott og gilt af hálfu Alþ., þegar veita skal þessi réttindi. Ég vil skjóta því fram sem minni skoðun, að eftir íslenzkum lögum get ég ekki unnið mér neinn rétt í neinni sveit landsins, þó að ég stundaði þar atvinnu mína. Ég mundi innvinna mér skyldur, en ekki réttindi. Þó að ég sækti atvinnu í annað hérað, hefði ég mitt lögheimili annarstaðar, og ég veit ekki betur en að lög landsins mæli svo fyrir, að hver maður hafi lögheimili, ef hann vill innvinna sér ríkisborgararéttindi. Hér er því ekki til að dreifa. Maðurinn vinnur aðeins hér á landi, en borgar alla sína skatta í Noregi. Lögin eru nú einu sinni svona. Og það er tvímælalaust, að með því að veita þessum manni ríkisborgararétt er vikið frá ákvæðum l. Mér er sama um það, hvort þessi skýrsla kom frá forsrh. eða ekki, og hvernig stendur á þessari ábendingu eigenda rafstöðvarinnar á Blönduósi viðvíkjandi einhverjum orðróm. Ég læt það inn um annað eyrað og út um hitt. Mér er sama, hvort það er út af einhverju landi eða húsi eða krakka, — það hefir engin áhrif á málið í mínum augum. Það, sem hér skiptir máli, er, hvort á að víkja hér frá fyrirmælum l. að því er snertir þennan mann eða ekki. Samanburð á því, hvort þetta atriði í fyrirmælum l. sé minna virði en önnur, leiði ég hjá mér. Það er viðurkennt, að lagalegum skilyrðum sé ekki fullrægt, og þess vegna held ég fast við það, að brtt. á þskj. 473 verði samþ., en hún er um það, að nafn þessa manns verði fellt úr frv. áður en gengið verður til atkv. um frv.