04.03.1940
Efri deild: 9. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (1611)

31. mál, tollskrá o. fl.

*Erlendur Þorsteinsson:

Fyrri flm. þessa frv., hv. þm. Vestm., hafði ætlað sér að gera grein fyrir þessu máli nokkuð nú þegar við 1. umr., en af því að hann er ekki hér í d., þá þykir mér rétt að segja um það nokkur orð.

Eins og frv. ber með sér, er í því farið fram á það, að á eftir c-lið 3. gr. l. um tollskrá bætist nýr liður, sem heimili að innheimta aðflutningsgjöld af efni í kassa um fisk til útflutnings eins og um almennan trjávið væri að ræða, enda sé gert ráð fyrir, að efnið sé sagað niður, en ekki unnið að öðru leyti.

Samkv. gömlu l. var tekinn af þessu nokkuð hærri tollur en af almennum trjávið. Það mun hafa átt að vera nokkurskonar verndartollur til að vernda innlendu framleiðsluna. Það kom hinsvegar fljótt í ljós, þegar farið var að nota þessa kassa meira, að þetta var óréttlátt, þar sem ekki var nema ein kassagerð til í landinu, og hún gat ekki fullnægt eftirspurninni. Gat jafnvel komið fyrir, að útflutningur tepptist af þessum sökum. Ef kassaefnið var hinsvegar keypt frá útlöndum var það miklum mun dýrara en að kaupa kassana tilbúna í Reykjavík, vegna hinna háu aðflutningsgjalda. Af þessum ástæðum var það, sem Alþ. 1938 samþ. með fjárlagaákvæði heimild handa ríkisstj. til þess að innheimta ekki hærri toll af kassaefni þessu en svo sem um er talað í frv. okkar. Þessi heimild er hinsvegar ekki í fjárl. fyrir yfirstandandi ár. Á þessum tíma hefir og verið samþ. ný tollskrá, en samkv. henni hefir tollur af þessu kassaefni hækkað talsvert, og er hann nú allt að því þrefalt hærri en tollur af almennum trjáviði.

Síðan undanþágubeimildin fekkst 1938, hefir útflutningur frysts fiskjar aukizt stórum, og er hann nú framleiddur á miklu fleiri stöðum en áður var.

Það er þess vegna ljóst, að enda þótt kassarnir væru allir keyptir hér innanlands, þá myndi kassagerðin ekki hafa undan að framleiða; í öðru lagi væri það miklu óhagræði bundið fyrir ýmsa útflytjendur að þurfa endilega að fá kassana héðan úr Reykjavík, og í þriðja lagi hefir flutningskostnaðurinn innanlands hækkað svo mjög, að það eitt nemur miklu álagi.

Nú viljum við gera tilraun til að bæta úr þessum vandkvæðum og þykir eðlilegt, að ekki sé lagður hærri tollur á kassaefnið en ef um almennan trjávið væri að ræða, en jafnframt þær skorður reistar, að kassaefnið sé aðeins sagað niður, en ekki að öðru leyti unnið.

Ég vil svo að lokum leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn.