26.03.1940
Efri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (1622)

31. mál, tollskrá o. fl.

*Erlendur Þorsteinsson:

Ég get verið mjög stuttorður. Hv. þm. Vestm. hefir að mestu tekið af mér ómakið að leiðrétta þann misskilning, sem hér hefir komið fram. Það kom fram hjá hv. 2. landsk., að hann gerir engan mun á plægðum og hefluðum viði og óhefluðum viði, en eins og hv. þm. Vestm. tók fram, er það einkennilegt, að tollurinn skuli vera þrisvar sinnum hærri, ef viðurinn er bútaður niður, heldur en ef hann er í heilum borðum. Ég get ekki verið sammála þeim, sem vilja halda í rangláta löggjöf fyrir það eitt, að hún hefir nýlega verið samþ.

Hv. þm. var að gera samanburð á kassagerðinni og síldartunnugerðinni og taldi starfsemi þeirra hliðstæða. Samkv. tollskránni er 2 aura tollur á kg. af tilsniðnum tunnustöfum, en af tunnunum sjálfum 2 aur. pr. kg. að viðbættum 2% verðtolli. Ef farið er á sama hátt með kassaefnið, ætti tollurinn að vera um 2% hærri, en nú hefir fjhn. gert ráð fyrir að bæta 10% við toll trjáviðarins og hefir þannig gengið lengra með ívilnun til þeirra, er búa til kassa, en til hinna, sem búa til tunnur, en þetta er sambærilegt við að flytja tunnurnar inn tilbúnar.