26.03.1940
Efri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

31. mál, tollskrá o. fl.

*Magnús Jónsson:

Af því að ég er einn af feðrum tollskrárinnar, vil ég með örfáum orðum svara hinni hörðu árás hv. þm. Vestm. á hana. En það er alls ekki tollskráin, sem hér er um að ræða, heldur undanþágu í fjárl., sem verið hefir, hvort hún eigi að hverfa eða standa í fjárl. áfram. Dæmið, sem fyrir lá, þ. e. símskeyti bæjarfógetans í Vestmannaeyjum, fannst mér heldur ekki heppilegt. Hér þarf að bera saman mismun á verði á kössum úr niðursniðnu efni og á kössum frá kassagerð hér á landi. Vitanlega myndi hver útflytjandi kaupa þar, sem ódýrast er. En við höfum ekkert dæmi, er sýni, hvernig þetta myndi verða.

En þó að ég sé að taka upp þykkjuna fyrir tollskrána, mæli ég með því, að þetta frv. verði samþ. með breytingum nefndarinnar.

Hv. 2. landsk. hélt því fram, að ef þetta frv. yrði samþ., myndi það hafa miklar breyt. í för með sér til hins verra fyrir kassagerðirnar, en þessi nýi iðnaður hefði unnið sig upp. Þetta er ekki rétt; hér er aðeins verið að fara fram á að halda þeirri undanþágu áfram, sem verið hefir í fjárl. 2 undanfarin ár. Verði frv. hinsvegar fellt, standa þessi fyrirtæki betur að vígi en áður. Ég get tekið undir rök hv. þm. Vestm.; þó að ég sjái galla á þessu, horfi ég hér á hagsmuni útflytjenda, enda illa gerlegt að íþyngja þeim.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um brtt. hv. þm., en vil aðeins benda á, að það er alveg föst regla í tollaákvæðum, sem ekki er unnt að víkja frá, að það er ekki hægt að setja það ákvæði í tollalög, að eigi að greiða þennan toll af vörunni, ef hún eigi að notast til þessa eða hins. Það þýðir ekki að segja: við skulum greiða 2% verðtoll og 7 aura á kg. í þungatoll af flugeldum, sem notaðir eru til skipa. Það er svo um fjöldamargar þarfavörur, sem lenda í hærri tolli en annars þyrfti að vera, t. d. meðul, sem notuð eru jafnframt til iðnaðar. Þetta er galli, sem loðir við alla tollalöggjöf og ekki verður komizt hjá.

Það mætti kannske leysa málið með því að veita einum aðila, t. d. áfengisverzluninni eða einhverri einkasölunni, heimild til þess að flytja inn flugelda til björgunar. Þetta mætti athuga í n., sérstaklega ef það kemur upp úr kafinu, að þetta nemi svo ákaflega miklu. En hvenær skjóta skip svona flugeldum? Hve oft á ári? — Ef þeim er ekki skotið á gamlárskvöld, er það kannske ekki gert árum saman, þ. e. a. s. ekki nema þegar þeim er skotið sem neyðarmerkjum, og þá getur það ekki numið miklu fyrir útgerðarkostnaðinn. Það er upplýst, að tollstjóri treystist ekki að greina í sundur björgunarflugelda og aðra, enda mun það ekki hægt.