26.03.1940
Efri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í B-deild Alþingistíðinda. (1624)

31. mál, tollskrá o. fl.

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég skal vera svo stuttorður sem unnt er. — Hv. 2. flm. málsins hélt því fram, að mínar aths. væru byggðar á misskilningi. Mér er vel ljóst, hvað um er að ræða. Grófari kassar eru fluttir hér inn líka, en þeir eru ekki settir í heflunarvél eins og hinir. Hér er gert ráð fyrir, að efnið sé flutt inn bútað og sagað, og hverfur því sú vinna. En engar upplýsingar liggja fyrir um það, hve mikill kostnaðarmunur er á því að fá þetta unnið hér eða erlendis. Þá vildi ég einnig beina því til hv. þm. Vestm., að í hans kjördæmi er kassagerð sem getur unnið þessa iðn, enda þótt efnið sé ekki flutt inn tilsniðið frá útlöndum. Þarf þá ekki þar að flytja kassana milli hafna, en það er eitt af þeim atriðum, sem talin eru málinu til stuðnings.