11.04.1940
Neðri deild: 33. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (1636)

31. mál, tollskrá o. fl.

*Sigurður Kristjánsson:

Þegar tollskráin var til athugunar í hv. fjhn. þessarar d. á síðasta þingi, var mikið talað um, að óþægilega mikill tollur kæmi á fiskumbúðir, sem ætlaðar væru utan um útfluttan fisk. Sérstaklega var athugaður sá munur, sem rétt væri að gera á vörum til umbúða, sem fluttar væru inn í landið óunnar eða að einhverju leyti unnar. Var það álit n. þá, að hvorttveggja bæri að hafa í huga, að íþyngja ekki atvinnurekstrinum, sérstaklega að því er snertir útflutning fiskjar í kössum, né iðnaði þeim, sem hér er kominn upp í landinu og býr til umbúðir úr óunnu efni. Afgreiðsla málsins varð ekki sú, sem allir hv. nm. hefðu kosið, og ég hefði kosið þessar umbúðir sem mest undanþegnar tolli. Það hefir verið talin mikil nauðsyn, að útflutningsvörur okkar væru sendar á markaðinn sem mest unnar. Það er blóðugt fyrir okkur að bera saman fiskútflutning okkar og annara þjóða, sem veiða þó miklu minna en við, en þær flytja út fisk fyrir meira verðmæti, vegna þess að þær breyta honum sjálfar í verðmætara form. Því hlýtur það að vera ósk allra landsmanna, að þetta geti færzt í svipað horf hér, að hér verði unnar verðmætari vörur fyrir erlendan markað og aukin þannig atvinna fyrir landsins börn sjálf. Nú hefir verið hnigið að því ráði að lækka allmjög tolla á umbúðum, sem eru unnar að einhverju leyti. En við það kemur fram nokkurt ósamræmi, því að enn er tollur á óunnu efni samur og áður. Tollur á óunnu efni í fiskumbúðir nemur lítilli upphæð fyrir ríkissjóð, en er þó nægur til þess, að iðnaður sá, sem skapazt hefir hér, myndi ekki standast samkeppnina frá vöru, er unnin væri erlendis, og yrði því líklega að leggjast niður. Ég held því, að það væri á allan hátt heilbrigðara að heimila að endurgreiða toll á efni, sem unnar eru úr umbúðir um fisk til útflutnings, er þær hafa verið smíðaðar og afhentar útflytjendum. Í tollskránni er gert ráð fyrir endurgreiðslu tolls á nokkrum vörum, sem ætlaðar eru til að gera verðmætari vörur úr sjó. Á þskj. 388 hefi ég nú borið fram brtt., þar sem lagt er til, að í frv. sé bætt málsgr., þar sem farið er fram á, að endurgreiddur sé tollur af trjáviði, sem unnir eru úr kassar utan um fisk til útflutnings. Ég tel víst, að hv. þm. geti fallizt á, að þetta sé nauðsynlegt. Við verðum að hlynna að því, að hægt sé að vinna útflutningsvörur okkar sem mest innanlands, og væri það mikill skaði, ef kassaiðnaður yrði að leggjast niður hér, þar sem búið er að verja til hans allmiklu fé, t. d. til véla, og margt fólk myndi missa við það atvinnu. Það getur ekki staðizt að leggja refsiskatt á það, sem unnið er í landinu, fremur en það, sem erlendis er unnið og með erlendum vinnukrafti. vænti ég þess, af því að hv. frsm. n. er í raun og veru inni á þessari sömu hugsun, að hv. dm. ljái henni einnig fylgi sitt.