11.04.1940
Neðri deild: 33. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (1637)

31. mál, tollskrá o. fl.

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti! Á þskj. 287 á ég brtt. við lagafrv. það, sem hér liggur fyrir, og vildi ég leyfa mér að gera grein fyrir henni.

Þessi brtt. er við 77. kafla tollskrárinnar, tölul. 1, þar sem tollur á gleraugum er ákveðinn 30%. Ég fer hér fram á, að hann verði lækkaður niður í 10%. Þar er líka ákveðinn tollur af gleraugnaumbúðum 50%, en brtt. mín leggur til, að hann lækki niður í 20%. Verðtollurinn af þessum tveimur tegundum var áður 8%. Mér þykir vera hlaupið nokkuð langt frá því verði, sem áður var á þessum vörum, sérstaklega ef tekið er tillit til þess, að tollskráin hefir í flestum tilfellum fært niður tolla á meðulum. Ég lít svo á, að gleraugu séu nokkurskonar hjálparmeðul fyrir þá, sem þurfa þessara hluta. Oftast eru það menn, sem eiga örðugt með að bera þunga skatta. Þess vegna finnst mér vera full sanngirni í því, að þessi meðul, gleraugu og gleraugnaumbúðir, verði ekki tolluð svo, að næstum ókleift sé fyrir fátæka menn að afla sér þessara hluta. Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta frekar, en vona, að hv. þm. sjái sér fært að samþ. þessa brtt. mína