19.04.1940
Efri deild: 43. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (1669)

119. mál, bráðabirgðatekjuöflun fyrir Hafnarfjarðarkaupstað

*Bjarni Snæbjörnsson:

Eins og menn sjá af þskj., þá er ekki farið fram á annað en að l., sem sett voru 1938 um þessa bráðabirgðatekjuöflun fyrir Hafnarfjarðarkaupstað, fái að gilda áfram, þannig að undanskilja megi útgerðarfyrirtæki í Hafnarfirði útsvarsálagningu svo lengi sem samþykki ríkisstj. fæst til þess. Það er m. ö. o. á valdi ríkisstj., hve lengi hún vill lofa Hafnfirðingum að halda þessu áfram. Það er skýrt tekið fram í grg., hvers vegna þetta er gert, og þarf ég ekki að rökræða það frekar, enda vil ég ekki tefja umr., en vil vonast til þess, að hv. d. og sú n., sem fær það til athugunar, sýni frv. jafnmikla velvild og skilning og hv. Nd. hefir gert og láti það ganga sem fyrst fram. Ég tel réttara að taka það fram, að ég tel þetta ekki vera neitt stórmál og þurfi eiginlega ekki að fara til n., en ég mun ekki gera það að ágreiningsatriði, ef einhver stingur upp á, að svo verði gert.