07.03.1940
Efri deild: 12. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (1680)

46. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Flm. (Magnús Jónsson):

Það málefni, sem um er fjallað í þessu frv. á þskj. 61, er svo alkunnugt mál og svo gamalt og hefir svo mikið verið um það rætt og ritað, að ég sé enga ástæðu til að fylgja því úr garði með neitt langri ræðu.

Ég býst við, að mörgum hafi þótt eðlilegt, úr því að ekki hefir náðst samkomulag eða lausn á þeim ágreiningi, sem hefir verið í þessum málum, að fram komi í þinginu einhver tilraun til að fá lausn á málinu, sem gæti orðið til þess, að um það skapaðist nokkur friður, og það er beinlínis til að greiða fyrir því, að þm. Sjálfstfl. hafa komið sér saman um að flytja frv. á þessa leið, sem við þm. þessarar d. höfum nú borið hér fram.

Það munu allir sjá, sem lesa þetta frv., að það er borið fram beinlínis til samkomulags. Það mætti kannske segja um það eins og ég hefi heyrt, að sagt sé um réttláta dóma, að það sé einkenni þeirra, að báðir aðilar séu óánægðir. Ég get vel trúað því, að þetta frv. sé þannig, að í raun og veru sé enginn sérstaklega ánægður með það. A. m. k. er það víst um ýmsa af flm. þess. Þeirra afstaða til þessa máls er þannig, að þeir mundu út af fyrir sig telja aðra lausn á málinu réttari heldur en þá, sem farið er fram á í þessu frv. En það stafar sem sagt af því, að þetta er tilraun, mjög alvarleg tilraun, til þess að fá samkomulag um málið, fá frið um málið, fá skipun á því, sem væri þannig, að hún gæti orðið að einhverju leyti til frambúðar.

Eins og frv. ber með sér, ganga ákvæði þess í þá átt, að halda að mjög verulegu leyti óbreyttum ákvæðum núgildandi l. um þetta efni. Innflutnings- og gjaldyrishöftum er haldið og sömuleiðis n. þeirri, sem með þessi mál hefir farið, en skipulagi hennar aðeins breytt að nokkru leyti, og á þann hátt, sem líkur mega vera til, að maður gæti fengið endanlegri lausn en þá, sem fengizt hefir hingað til.

Það mætti ef til vill vænta þess, að ef fara ætti að breyta framkvæmd á innflutnings- og gjaldeyrisfyrirkomulaginu, þá mundu vera í þessu frv. margbrotnar reglur um, hvernig starfa skyldi í þessu máli. Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að mér hefði fundizt eðlilegt, að þegar í stað, þegar gjaldeyrislögin voru sett, þá hefðu verið settar mjög ýtarlegar reglur og skýrt út í yztu æsar, eftir því sem hægt hefði verið til þess að tryggja sem allra réttlátlegasta framkvæmd. Það er þó ekki þessi leið, sem farin er í frv. því, sem hér liggur fyrir, heldur er lagt til, að sú breyt. ein verði á skipun n., að þessi mál verði meira lögð í hendur þeirra aðila, sem hlut eiga að máli, og er leitazt við að skipta því þannig á milli þessara aðila, að sem allra sízt þurfi að koma til árekstra. Lagt er til, að í n. verði fækkað um tvo menn, og er það gert í þeim beina tilgangi, að þeir aðilar, sem hér eiga sérstaklega hlut að máli, þ. e. a. s. kaupmenn og samvinnufélög, fái í raun og veru aðalúrslitavaldið um, hvernig fer um innflutning þeirra vara, sem á annað borð eru innflutningshömlur á, án þess þó að milliríkjasamningar eða annað þess háttar komi þar inn í. Þriðja manninn á svo að skipa í n. eftir samkomulagi ráðh., sem vitaskuld stafar af því, að nú starfar hér samvinnustjórn þeirra flokka, sem málum ráða á Alþingi, og mætti því vænta þess, að sá maður, sem þeir útnefndu sem oddamann, yrði valinn þannig, að hann væri vel til þess fallinn að miðla málum, ef þörf væri á, milli þessara tveggja aðila, fulltrúa kaupmanna og samvinnumanna. Ég vil segja fyrir mitt leyti, að ég er ekki svo viss um, að þetta málamiðlunarstarf þyrfti að vera svo erfitt. Ég hefi nokkuð mikla tröllatrú að óreyndu á, að þessir aðilar muni skipa sem fulltrúa sína í þessa n. menn, sem hefðu svo gott yfirlit yfir málin og svo mikla ábyrgðartilfinningu, að þeir komi sér saman um einhverjar heilbrigðar og góðar reglur fyrir úthlutuninni. En ef þeir eiga erfitt með að koma sér saman um eitthvert ákveðið mál, þá get ég ekki hugsað mér heppilegri skipun á manni til að miðla þarna málum en að fulltrúar þessara þriggja flokka í ríkisstjórninni komi sér saman um þennan eina mann. Ég skal játa, að með þessu er málinu, þó að samþ. yrði, stefnt í vissa hættu, því að hér er stj. í raun og veru gefið nokkurskonar synjunarvald um, að þessi l. komi til framkvæmda, en ég vil engan veginn að óreyndu álíta, að þeir menn, sem hafa á annað borð verið valdir til samvinnu í ríkisstj. og hefir fram að þessu tekizt að vinna saman í mjög vandasömum málum og við vonum að geti það einnig í framtíðinni, að þeir strandi á þessu eina skeri og finni engan mann, sem þeir treysti til að koma fram sem hæstaréttardómara og miðla sól og regni, eftir því sem hann teldi réttlátt, milli þessara aðila. Ég vil sem stjórnarstuðningsmaður ekki álíta, að í stjórnarsessi sitji þeir menn, sem vilji láta eins þarft mál stranda á því. Ég held, að svo framarlega sem þetta mál nær samþykki Alþ., þá standi á bak við það sá vilji hjá stj., sem mundi sýna sig í því, að hún mundi velja heppilegan mann í þennan sess. Ég er ekki að segja, að þetta yrði eina hlutverk þess manns, sem stj. kæmi sér saman um að skipa í n. Auðvitað er hans starf að vinna fullkomlega að þessum málum, ekki eingöngu að ágreiningsatriðunum, heldur málunum í heild sinni. Ég vil segja, að þessi maður yrði fulltrúi þriðja aðilans, ég vil segja stærsta aðilans, en það eru neytendurnir, sem svo eiga að taka við og nota þær vörur, sem fluttar eru inn í landið, sem ég vil segja, að hafi stærstan og mestan rétt í þessu máli öllu saman. Það má segja, að það sé ekki stærsta atriðið, hvort vörurnar eru fluttar inn af einum eða öðrum, heldur að þær séu fluttar inn skynsamlega og miðlað þannig, að eðlilegar vörur fyrir eðlilegt verð séu fluttar inn fyrir þann gjaldeyri, sem á annað borð fellur til. Það verður verkefni allra þessara manna, og þá ekki sízt þess manns, sem er útnefndur af stj., að sjá um, að verzlunin undir höftunum verði sem eðlilegust og heppilegust fyrir neytendur.

Það, sem er svo breytt hér út af, er það, að tveir af þeim fulltrúum, sem hingað til hafa verið í n., hliðstæðir hinum, verði þar áfram, en ekki hliðstæðir hinum. Þeir fulltrúar, sem bankarnir skipa þar eftir þessu frv., hafa þarna algerða sérstöðu. Þeir eru eftir frv. ekki skipaðir af ríkisstj., heldur af stjórnum bankanna. Þeir eru þar, getur maður sagt, til hægðarauka, til þess að bankarnir geti þá strax sagt til um það, sem þeir verða að segja til um á sínum tíma, en það er, hversu mikinn gjaldeyri þeir sjá sér fært að láta til þeirra hluta, sem n. ákveður um, þ. e. a. s. til að kaupa þær vörur, sem heyra undir valdsvið n., vörur, sem eru ekki ákveðnar með samningum milli ríkja. Mér finnst þetta alls ekki óeðlilegt fyrirkomulag. Það er í raun og veru ekki fyrst og fremst í verkahring bankanna að ákveða um, hvaða vörur sé mest þörf á að flytja til landsins. Reyndar getur maður sagt, að það sé í bankanna þágu að því leyti að halda við ýmiskonar fyrirtækjum, sem þeir hafa sett fé í, en ýmislegt af þeim heyrir ekki undir n., það eru frjálsar vörur, sem heyra undir verksvið annara, en maður verður að ganga út frá, að saman falli alþjóðarhagur, sem n. verður að ganga út frá, og hagur bankanna. En það sjálfsagða verkefni, sem ómögulegt er að taka af bönkunum, er það, að ákveða um þann gjaldeyri, sem nú eftir l. er skylt að afhenda bönkunum til meðferðar. Það er lögskipaður réttur bankastjóranna, og það er ekki hægt að „disponera“ fyrir þá nema með undirskrift bankastjóranna. Það var því í sjálfu sér engin nauðsyn að hafa fulltrúa þeirra í n., því að þetta hefði alltaf komið til bankanna kasta hvort sem var, en það er áreiðanlega hentugast, að fulltrúar þeirra séu með í starfinu og kynnist því, þó að þeir taki ekki þátt í því með atkv. sínu.

Þetta er aðalefnið og aðalbreyt. þær, sem gerðar eru með frv. Ég vil segja, að ég held, að við flm. gætum frekar legið undir ámæli fyrir, að nokkuð lítið efni væri í þessu frv., heldur en að við viljum vaða hér inn í með einhverju offorsi. Ég skal fúslega viðurkenna, að árangur þessa frv., þótt að l. yrði, er að miklu leyti undir því kominn, hversu maklegir þessir aðilar eru þess trausts, sem Alþ. sýndi þeim, ef það samþ. þetta frv.

Þá er önnur breyt. í 3. gr. frv. Það eru meira starfsreglur og sumpart það, sem ekki verður hjá komizt. Það er vitanlegt, að stj. verður að ákveða, hverjar vörur skuli vera frjálsar og sömuleiðis hvaða vörur er talið nauðsynlegt að banna alveg. Nú eru þau ákvæði í frv., að stj. geti ákveðið þetta. Það er alveg meiningarlaust, að það þurfi að koma til kasta stj. um eitthvert smávægilegt ákvæði, en stj. hefir valdið og getur, hvenær sem hún vill, gripið inn í. Sömuleiðis er stj. sjálfsagður aðili til að segja til um, hvers milliríkjasamningar krefjast í þessu efni. Ég held því, að þessi þriðji fyrri liður geti naumast orkað tvímælis. Ég býst varla við, að neinn fari að rísa upp og hafa á móti því, að innflutningnum sé skipt réttlátlega niður og sama reglan sé látin gilda, hver sem í hlut á. Ég ætla a. m. k. ekki að mæla frekar fyrir því, fyrr en ég heyri andmæli gegn því, að það sama eigi hér að ganga yfir alla.

Þetta er þá efni frv. Ég skal ekki fjölyrða um það frekar. Ég held, að það yrðu nokkur vonbrigði, ef þingið gæti ekki komizt að niðurstöðu á þeim grundvelli, sem hér er um að ræða. Það ákveður náttúrlega hver fyrir sig, hvað hann telur forsvaranlegt að ganga langt í þessu efni, en ég tel, að þeir menn taki á sig nokkra ábyrgð, sem vilja setja það samstarf, sem nú er, í hættu út af ekki ósanngjarnari till. en þeim, sem hér liggja fyrir, og það er áreiðanlega hættulegt fyrir samstarfsgrundvöllinn, að einhver flokkur mála sé þar sí og æ að þvælast fyrir óleystur. Það er öllum hv. þm. kunnugt, að það voru þessi mál, sem nálega höfðu komið í veg fyrir, að þessi samvinna gæti tekizt, og það getur verið, að menn séu mismunandi ánægðir yfir, að hún tókst. Við höfum, með því að bera þetta frv. fram, lýst okkar skoðun á, hvernig sem við lítum á, að þessi samvinna tókst, að hún eigi að haldast, því að það hlýtur að vera öllum ljóst, að það mál, sem nærri því hafði komið í veg fyrir samvinnuna, hlýtur að geyma í sér talsverða hættu fyrir samvinnuna, meðan það er óleyst. Það er mjög einlæg ósk mín, að þetta mál fáist leyst, svo að það fái í framtíðinni greiðari og hljóðaminni framkvæmd en verið hefir hingað til.

Svo er það till. mín, að þessu máli verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og fjhn. Ég hefi borið það undir nokkra menn, í hvaða n. þetta mál ætti að fara. Allshn. gæti líka komið til greina, en ég býst við, að mál eins og gjaldeyrismálin hafi aldrei verið látin heyra undir aðra n. en fjhn.