07.03.1940
Efri deild: 12. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (1681)

46. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Áður en ég vík að einstökum ákvæðum þessa frv., vil ég gera nokkra almenna grein fyrir því, hvernig ég lít á þörfina fyrir, að eins og nú standa sakir séu innflutnings- og gjaldeyrishömlur.

Það er rétt, sem hv. flm. tók fram, að þetta frv. kemur ekki inn á það mál út af fyrir sig, hvort slíkar hömlur séu nauðsynlegar eða ekki. En eigi að síður getur verið gott að rifja það upp fyrir sér, því að ef engin þörf væri á því, þá mundu menn ekki gera sér að leik að hafa til framkvæmda slíkt mál, sem auk þess er alltaf nokkur ágreiningur um. Það kemur stundum fyrir, að menn telja þessi afskipti óþörf, vegna þess, að ástandið er í verulegum atriðum breytt frá því sem var, þegar hægt var að fá hingað til lands vörur með gjaldfresti. Nú sé þessu ekki lengur til að dreifa, og því megi losna við mikið af þessu umstangi. En ég tel samt, að þetta sé ekki hægt, og vil ég gera nokkra grein fyrir ástæðunum til þess og jafnframt skýra það, hvers vegna ég og Framsfl. erum þeirrar skoðunar, að þetta eftirlit sé nauðsynlegt.

Ef vörur fást frá útlöndum með gjaldfresti, er hægt að flytja þær inn í landið án þess að þeir, sem hafa umráð með gjaldeyrinum, geti fylgzt þar með eða haft fullt yfirlit um innflutninginn. Og þó að nú sé minna flutt til landsins gegn gjaldfresti en áður var, er þetta þó ekki horfið og ekki útilokað, að það geti aukizt aftur á næstunni. Og ef hægt er að fá til landsins vörur, sem afhentar eru á skipaafgreiðslunum gegn greiðslu út í hönd, þá er ekki heldur hægt fyrir þá, sem gjaldeyrinum ráðstafa, að fá fullt yfirlit um innflutninginn. Á meðan hugsanlegt er, að vörur verði fluttar til landsins með þessu móti, virðist ekki hægt að hafa hönd í bagga með þessu nema því aðeins, að innflutningsleyfa sé krafizt. Svo er það, að ef hægt er að fá gjaldfrest, þá á það einkum við um þær vörutegundir, sem helzt er hægt að komast hjá að kaupa. Það myndi því mjög raska innflutningnum frá því, sem æskilegast væri, ef ekki þyrfti innflutningsleyfi fyrir þessar vörur, og myndi af þessu stafa glundroði um notkun gjaldeyrisins og jöfnun hans milli innflytjenda, því að þegar varan er komin til landsins og skuldin stofnuð, vilja menn leggja sig í líma til að greiða hana, enda venjulega mjög rekið eftir af þeim, sem vöruna hafa flutt til landsins, að fá greiðsluna. Og reynsla undanfarinna ára sýnir, að vöruskuldir, sem kaupendur geta að vísu greitt í íslenzkum krónum, en fá ekki yfirfærðar, eru yfirleitt skoðaðar sem skuldir þjóðarinnar. Þetta er okkur sérstaklega kunnugt, af því að undanfarin ár hafa verið uppi miklar bollaleggingar um að taka gjaldeyrislán til greiðslu á slíkum skuldum.

Það er því ljóst, að ef hægt er að flytja til landsins vörur án staðgreiðslu, þá er ekki hægt að komast hjá því að krefjast innflutningsleyfa, þá er ekki nóg að hafa gjaldeyriseftirlit, því að varan getur verið komin til landsins áður en leita þarf eftir gjaldeyri fyrir hana, eða þetta getur verið búið að binda þannig, að vart verði komizt hjá greiðslu.

En hugsum oss hinsvegar, að svo væri komið, að alls engar vörur fengjust til landsins nema gegn staðgreiðslu. Margur mun halda, að þá væri hægt að losna við innflutningsleyfin, því að þá væri ekki hægt að ákveða innflutninginn fyrr en greiðsla væri tryggð. En eftir mínu viti þyrftu þó sömu forsendur að vera fyrir hendi, þegar til þess kæmi að ákveða, hversu miklu skyldi úthluta af gjaldeyri og hverjir skyldu hljóta hann, eins og þegar um er að ræða að skera úr um það, hvaða vörur skuli flytja inn og hversu mikið skuli falla í hlut hvers innflytjanda. Ef gjaldyrisástandið er svo, að ekki er hægt að flytja inn ótakmarkað, þá er sami vandinn uppi á teningnum um úthlutun gjaldeyrisins sem nú um úthlutun innflutningsleyfanna. Það yrði ekki minni vandi að leysa úr þessu. Myndi verða að leysa sömu verkefni í sambandi við greiðsluna og innflutningsn. verður nú að leysa í sambandi við innflutninginn. Ef þetta yrði ekki gert af handahófi, heldur miðað við það, hvaða vörur teljast nauðsynlegar, sýnast mér þeir, sem þetta eiga að gera, verða að hafa samskonar reynslu og gögn og innflutningsn. hefir nú. En ég get ekki hugsað mér, ef takmarka á innflutninginn á annað borð, að komizt verði hjá slíku eftirliti. Og á meðan viðurkennt er, að innflutninginn verður að takmarka, en gjaldeyrir hinsvegar ekki nægur til að greiða allt það, sem beðið er um, virðist mér verða að hafa þá aðferð að veita innflutningsleyfi fyrirfram eða gjaldeyrisleyfi. Samskonar kerfi þyrfti þá líka að hafa, þó að bankarnir önnuðust leyfisveitingarnar, annaðhvort einir eða ásamt ríkisstj. Í báðum tilfellum held ég, að þetta kerfi yrði að vera svipað og nú er.

Þetta voru aðeins fá inngangsorð frá mínu sjónarmiði og Framsóknarflokksins, en frá því sjónarmiði er óhjákvæmilegt að hafa þetta eftirlit. En við vildum geta losnað við það smám saman, ef fjárhagsástæður leyfa. Þetta vildi ég taka fram, enda þótt það snerti ekki frv. beinlínis.

Í frv. eru aðallega þrjú atriði, sem máli skipta. Í fyrsta lagi það, að í stað þess að nú eru þrír af fimm fulltrúum í gjaldeyrisn. skipaðir af ráðh. þeim, sem fer með gjaldeyrismál, skulu nú tveir skipaðir af Sambandi íslenzkra samvinnufélaga og Verzlunarráði Íslands, en hinn þriðji af ríkisstj. allri. Ég skal víkja að því, hvort það muni til bóta, að í stað tveggja stjórnskipaðra fulltrúa komi menn skipaðir af Verzlunarráðinu og Sís. Verkefni gjaldeyris- og innflutningsn. er ekki fyrst og fremst að skera úr um það, hverjir skuli flytja inn vörur, eins og hv. flm. virðast gera ráð fyrir, heldur að ákveða, hve mikið skuli flutt inn af vörum og hvaða tegundir skuli sitja fyrir, ef ekki er hægt að flytja inn allt, sem óskað er eftir og þörf er á. Meðal verkefna, er n. fær til úrlausnar, er til dæmis það að ákveða, hvort flytja skuli inn efni til nýrra framkvæmda, báta, vélar og svo framvegis. Það er ekki nema nokkur hluti þessa starfs snertandi verkahring Verzlunarráðsins eða Sís, og sá hlutinn, sem ekki snertir verkahring þessara stofnana, er mikill þáttur í starfi n., en það eru þær almennu ákvarðanir, er ég tel, að n.menn geti ekki framkvæmt nema sem umboðsmenn ríkisvaldsins. Til dæmis er það atriði, hverjar vörur skuli sitja fyrir, þegar innflutningur er ákveðinn, svo mikilsvert mál, að það snertir í rauninni allan almenning í landinu, og hlýtur það að vera ríkisvaldsins að skera úr um það. Ríkisvaldið ber ábyrgð fyrir Alþingi, og það er mikilsvert, að þeir menn, sem eiga að ákveða þetta, beri ábyrgð fyrir Alþingi, en það gerir hvorki Verzlunarráðið né Sís. Því tel ég þessa breytingu ekki vera til bóta.

Annar þáttur í þessu starfi, sem að vísu snertir að nokkru Verzlunarráðið og Sís, er það, er til þess kemur að skipta innflutningi milli innflytjenda, en það er aðeins einn þátturinn. Ég vil skjóta því hér fram til athugunar, hvort ekki mætti haga þessu svo, að þótt þessar stofnanir ættu ekki beinlínis fulltrúa í n., þá væri leitað til þeirra þegar kæmi að þeim verkefnum, er sérstaklega snerta þeirra verkahring. Þá væri til dæmis formaður gjaldeyrisn. tengiliður milli n. í heild og þessara aðila, og mætti þannig reyna til þrautar, hvort ekki væri hægt að sameina sjónarmið þessara hlutaðeigenda.

Þá er annað atriði frv., að þriðji maðurinn í n. skuli skipaður af allri stj., í stað þess, að hann sé skipaður af þeim ráðh., sem með þessi mál fer. Ég hygg, að þetta sé algert nýmæli í okkar löggjöf. Það mun ekki þekkjast, að ráðh., sem ber pólitíska ábyrgð á ákveðnum málum, hafi ekki endanlegt úrskurðarvald um það, hverjir starfi í hans umboði að þessum málum. Þegar í l. stendur, að ríkisstj. skuli skipa þessa eða hina starfsmenn, þá er ætíð átt við það, að hlutaðeigandi ráðh. skuli gera þetta, og það er alltaf svo, að hver ráðh. ber ábyrgð á þeim málum, er undir hann heyra, en ekki allir ráðh. fyrir einn. En þetta fyrirkomulag, sem í frv. er stungið upp á, myndi þýða það, að sá ráðh., sem ber ábyrgð á gjaldeyrismálunum, ætti engan fulltrúa í n. þeirri, er um þau fjallaði, og hefði í rauninni ekkert um þau mál að segja. Hitt er annað mál, þó að þessu sé svo háttað sem ég hefi lýst, að hver ráðh. beri ábyrgð á þeim málum, er heyra undir hans stjd., að í samsteypustj. er það ætíð svo, að menn bera saman bækur sínar og reyna að komast að samkomulagi eftir því, sem hægt er.

Þá vantar í frv. ákvæði um það, hversu með skuli fara, ef ekki næst samkomulag innan stj. um þetta atriði. Hv. 1. þm. Reykv. kvaðst ganga út frá því, að enginn ágreiningur myndi koma hér upp. En ef skoðanamunurinn um þessi mál almennt er eins djúptækur og hann vildi vera láta, er ekkert líklegra en það, að ágreiningur yrði einmitt um þennan oddamann, og fæ ég ekki séð, að með þessu fyrirkomulagi yrði komizt hjá slíkum ágreiningi.

Loks er gerð breyting á afstöðu bankanna í n. Þetta getur að vísu verið til athugunar, en ég tel, að óhægt myndi að koma við þessari starfsskiptingu. Ég tel það ekki útilokað, að bankarnir hafi aðeins atkvæðisrétt um heildarupphæð þess gjaldeyris, er úthluta skal, en þetta þarf þó nánari athugunar við. Mér finnst þó, ef þetta fyrirkomulag verður tekið upp, ekki ástæða til að hafa þetta svo fast bundið, að bankarnir geti þar sagt hið endanlega orð.

Annarstaðar, þar sem haldið er uppi slíkum hömlum sem hér, eru þessi mál framkvæmd fyrst og fremst á ábyrgð ríkisstj. þeirra, er með völdin fara í hvert sinn, en eftir frv. á ríkisstj. aðeins að hafa í n. einn fulltrúa af þrem, eða réttara sagt fimm, fjórir væru frá stofnunum, sem ekki bera ábyrgð gagnvart Alþingi, og sá ráðh., sem ber pólitíska ábyrgð á þessum málum, á ekki að hafa neinn fulltrúa í n. og ekki íhlutunarrétt um störf hennar. Í Danmörku er þessu svo háttað, að í l. er gert ráð fyrir, að endanleg áætlun um innflutningsleyfi verði að samþ. af ráðh. þeim, sem þessi mál heyra undir. Og þegar það er athugað, að þær ákvarðanir, sem gerðar eru í þessum málum af n., snerta alþjóð manna meira en flest þau l., sem gefin eru út af Alþingi eftir þrjár umr., þá verður það að teljast alveg sjálfsagt, að Alþingi geti komið ábyrgð á þann aðila, sem með þessi mál á að fara í hvert sinn. En það er aðalgallinn á þessu frv., að valdið er hér fært til aðila, sem ekki bera pólitíska ábyrgð gagnvart Alþingi. Hér við bætist svo nauðsyn þess, að fulltrúar þeir í n., sem skera eiga úr um þessi þýðingarmiklu mál, þurfi ekki að líta á sig sem fulltrúa ákveðinna stofnana, því að hagsmunir slíkra stofnana, þótt merkar séu, geta oft rekizt á hagsmuni þjóðarheildarinnar, til dæmis þegar um það er að ræða að ákveða, hve mikill vöruinnflutningur skuli leyfður í einstökum greinum. Að þessu leyti fer frumvarpið ekki í rétta átt. Ég tek til dæmis bankana, sem verður að líta á sem mjög konservatívar stofnanir um úthlutun gjaldeyrisleyfa, því að þeir verða meira varir við gjaldeyrisvandræðin en aðrir. En þeir eru þó engan veginn lausir við önnur sjónarmið, sem togast á við þetta. Engir eru reyndar alveg lausir við slíkt, en því háðari sem fulltrúarnir eru einstökum stofnunum, því meiri hætta er á því, að þeir muni taka einhliða tillit.

Þá ætla ég að lokum að fara nokkrum orðum um 3. gr. frv. Þar er sagt, að n. skuli skipta innflutningnum milli skrásettra innflytjenda hverrar vörutegundar, sem takmarkaður er innflutningur á, og fari skiptingin milli verzlana í landinu (kaupfélaga og kaupmanna) fram eftir sömu reglu. Þetta ákvæði lítur að vísu sanngjarnlega út, en það verður þó að teljast mjög vafasamt, hvort þetta ákvæði samrýmist núverandi úthlutunarreglum innflutnings- og gjaldeyrisnefndar. En hingað til hefir ekki verið bent á aðra tilhögun, er betur tryggði rétt neytenda til þess að velja á milli verzlana, og það ber að telja þýðingarmesta atriðið.

Þá vil ég aðeins að lokum beina þeirri spurningu til hv. flm. þessa. frv., hvort hann telur, að núverandi starfsreglur innflutnings- og gjaldeyrisnefndar geti samrýmzt þessu ákvæði frv. Ég tel þetta atriði einnig athugandi fyrir þá n., sem fær þetta mál til meðferðar.