22.04.1940
Efri deild: 45. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (1688)

46. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Þetta frv. er búið að liggja lengi hjá fjhn., en að hún hefir ekki afgr. málið fyrr, er ekki vegna þess, að hún hafi ekki sinnt því, því að það var ekki langt liðið frá því, að málinu var vísað til n., og þangað til hún fór að ræða um það á fundum sínum. Orsökin til þess, að málinu hefir ekki verið skilað frá n. fyrr en nú, er sú, að þetta mál hefir verið mikið ágreiningsmál milli stjórnarfl., og það hefir staðið á því, að samkomulag næðist milli þeirra, þar til loks nú, að samkomulag er fengið, eins og menn geta séð á nál. 536. Ég ætla ekki að fara langt út í þetta mál, en fyrir hönd Framsfl. vil ég taka það fram, að hann gat ekki gengið að þeim ákvæðum frv., að þessi mál, gjaldeyrismálin, væru beinlínis með l. tekin úr höndum þess ráðh., sem með þau á að fara samkvæmt konungsúrskurði. Hinsvegar er að sjálfsögðu æskilegt, að stj. hafi samræður og samvinnu um þessi mál sem önnur, og þar af leiðandi eru hér að tilhlutun n. bornar fram brtt. við 6. gr. gjaldeyrisl., sem gefa það til kynna, að þó að hin stjórnskipulega ábyrgð sé hjá þeim ráðh., sem þessi mál heyra undir, og er þá vitanlega úrslitavaldið hjá honum, þá höfum við þó viljað orða greinina svo, að ríkisstj. skipi gjaldeyrisnefndina og þá nefnd. sem stungið er upp á að skipa í till. n., í stað þess að l., eins og þau eru nú, segja, að fjmrh., nú viðskmrh., skipi n. Við framsóknarmenn höfum heldur ekki getað séð, að það væri rétt, að fela sérstökum fulltrúum verzlunarstéttarinnar að ákveða, hvað mikill innflutningur væri leyfður til landsins. Við höfum litið svo á, að það vald þyrfti að vera hjá mönnum, sem ekki hafa í því efni neinna sérhagsmuna að gæta, og við höfum talið, að gjaldeyris- og innflutningsn., eins og hún nú er skipuð, væri til þess vel fær að hafa þetta vald. Aftur á móti höfum við getað fallizt á, að sérstök nefnd yrði skipuð til að annast skiptinguna á milli einstakra verzlana, eftir að búið er að ákveða heildarinnflutninginn, og að hún verði skipuð með svipuðum hætti og gert er ráð fyrir í frv. Um þetta hefir svo orðið samkomulag í n. og milli flokkanna, þó með vissum fyrirvara frá Alþfl. Með þessu virðist líka gengið verulega til móts við flutningsm. þessa frv., því að þeir töldu höfuðtilgang sinn með frv. vera þann, að tryggja réttlátari skiptingu milli hinna einstöku verzlana, en óánægja og ágreiningur hefir aðallega verið um skiptingu milli einstakra verzlana, og með því að breyta til á þennan hátt, mætti þá sennilega vonast eftir því, að óánægjan yrði minni um þessa skiptingu heldur en verið hefir.

Þá er í 3. gr. frv. nánar ákveðið um það, eftir hvaða reglum eigi að úthluta innflutningi. Það virðist nú ekki í sjálfu sér vera farið hér fram á neitt sérstaklega óaðgengilegt með því, sem í 3. gr. frv. stendur. En allir vita, að um þessi efni hafa verið deilur. Og það er visst orðalag, sem í sjálfu sér er blátt áfram og meinlaust, en búið er að leggja í ákveðna merkingu, og þess vegna hefir það orðið úr að fella þessa gr. burt úr frv. og treysta því, að í staðinn fyrir að ákveða svo nákvæmlega um þetta sem gert er í 3. gr. frv., þá geti bæði ríkisstj. og þær n., sem um þessi mál eiga að fjalla samkvæmt till. n., fengið viðunandi lausn á þessu máli, og gert það svo réttlátlega sem frekast er kostur. Samkv. þessu hefir það orðið að samkomulagi að bera fram þær brtt., sem eru á þskj. 536, en samkvæmt þeim á gjaldeyris- og innflutningsnefnd að vera skipuð á sama hátt eins og áður, nema hvað svo er ákveðið, að hún skuli skipuð af ríkisstj., sem orðað hefir verið í l. áður ráðh., nú viðskmrh., og í höndum þessarar n. sé það að ákveða um innflutning og hversu mikið sé leyft að flytja inn af hinum einstöku vörutegundum.

Aðalnýmælið í till. n. er svo það, að við hlið gjaldeyris- og innflutningsn. sé skipuð þriggja manna n. Á einn nm. að vera tilnefndur af Verzlunarráði, annar eftir tilnefningu SÍS, og sá þriðji af ríkisstj. án tilnefningar, og sé hann formaður n. Hlutverk þessarar n. sé að skipta innflutningnum milli hinna einstöku verzlana. Þó er þarna undanþegið byggingarefni, sem flutt er inn til opinberra framkvæmda og atvinnufyrirtækja, sem sérstakt innflutningsleyfi hafa fengið. Að sjálfsögðu er það tilgangur með þessari till., að fulltrúar þessara aðalverzlunargreina í landinu, kaupmanna annarsvegar og SÍS fyrir hönd kaupfélaganna hinsvegar, reyni að semja um það, hvernig innflutningi sé skipt. Árangur af þessu býst ég við, að verði mikið undir því kominn, hvernig samkomulag þessara nm. verður. En vitanlega hefir orðið að gera ráð fyrir því, að svo gæti farið, að þeir gætu ekki komið sér saman, og því er svo ákveðið að það sé oddamaður í þessari n.. skipaður af ríkisstj.

Ég hefi víst gleymt að geta þess, að það er innflutningur ákveðinna vörutegunda, sem á að heyra undir þessa nýju n., eða skipting á innflutningi þeirra vara. Það eru búsáhöld, skófatnaður, vefnaðarvörur og byggingarefni. En þegar þessir vörufl. eru taldir og svo þeir vörufl., sem engin höft gilda lengur um, þá eru komnar allar helztu nauðsynjavörur og það, sem aðallega er að ræða um í þessum efnum. Eftir er þá ekki annað en vörur, sem ýmist eru bannaðar, eða þá svo lítill innflutningur leyfður á, að ekki þykir taka því að telja það hér upp.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, enda býst ég við, að það hafi lítinn árangur. Þetta er samningamál, og frá þessu er gengið milli flokka. Þar af leiðandi býst ég við, að ganga verði að þessum samkomulagsgrundvelli, sem hér er lagður í nál. fjhn., ellegar þá að ekki verður gerð breyt. á þessum málum nú.

Ég skal svo geta þess, að samkvæmt ósk Sjálfstfl. höfum við þrír, sem eigum sæti í fjhn. þessarar d., jafnframt því að gefa út þetta nál., lagt fram þáltill. í Sþ. um það, að skipuð verði mþn. þriggja manna til þess að taka öll þessi mál til endurskoðunar og gera till. um skipun þeirra. Og er það vitanlega framhald af þeim samkomulagstilraunum um þessi efni, sem farið hafa fram hér á Alþ.

Einn nm., hv. 10. landsk., hefir skrifað undir nál. okkar með fyrirvara og nú þegar borið fram sérstaka brtt., sem hann að sjálfsögðu mun gera grein fyrir.