22.04.1940
Efri deild: 45. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (1690)

46. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Magnús Jónsson:

Ég ætla ekkert að leggja til almennra umr. um málið. Það er búið að ræða það svo mikið okkar á milli, því málið er svo víðtækt. En mér hafði dottið í hug — að vísu of seint, af því að það hvarf aftur úr huga mínum — að í raun og veru sé nauðsynlegt að setja eitthvert nafn á þessa 3 manna n. N. gæti náttúrlega komið sér upp nafninu sjálf, en ég álít réttara, að nafnið sé ákveðið í l. Ég hefi borið þetta undir nokkra menntamenn í íslenzku máli, og það er dálítill vafi, hvað hún á að heita. Hún gæti heitið úthlutunarnefnd, en mér finnst það ekki eiginlega fallegt nafn. En af þeim nöfnum, sem stungið hefir verið upp á, hefi ég helzt fallizt á, að hún héti vörumiðlunarnefnd. Hún er ekki innflutningsn. að því leyti, að hún á aðeins að taka við vöruflokkum, sem innflutningur hefir verið leyfður á, og skipta á milli þeirra, sem vilja fá leyfi. Ég ber því fram skriflega brtt. um það, að inn í 2. málsgr., þar sem stendur „ennfremur skal ríkisstj. skipa 3 manna nefnd“, þar komi: er nefnist vörumiðlunarnefnd o. s. frv. Og mun ég afhenda hæstv. forseta þessa skrifl. brtt.

Ég vil aðeins út af því, sem hv. 10. landsk. sagði, í fyrsta lagi segja það, að hér er ekki um neina undirnefnd að ræða. Þetta er algerlega sjálfstæð n., hliðstæð gjaldeyris- og innflutningsn., skipuð öðrum mönnum með algerlega sjálfstætt starf, sem henni er ekki falið af hinni n., og meira að segja það starf, sem hefir ekki þótt vandaminnst, vörumiðlunina, þó að hún sé hér bundin við aðeins ákveðnar vörutegundir. Ég skal ekki um það segja, hvort meiri starfskrafta þarf fyrir utan sjálfa nm., en ég hygg, að það þurfi ekki. En um þessi stóru höfuð, sem eru á sumum hlutum, þá er ég sammála hv. 10. landsk. um, að hér er nokkuð stórt höfuð á svo litlum búk. Ég man ekki, hvernig það var hér fyrir nokkrum árum með síldarverksmiðjurnar. Var það ekki yfir 20 manns með öllum n., yfirn. og umsjónarmönnum í allt? Hvort það var samþ. eða ekki, man ég ekki fyrir víst, en í till. voru taldir 21 eða 23 menn. Og það er ósköp meinlaust í sjálfu sér, þó að þessi n. starfi, en hún getur leitt til betra samkomulags um þessi mál.