23.04.1940
Neðri deild: 49. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (1713)

46. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég tel, að nokkurs misskilnings kenni um þetta mál hjá hv. þm. V.-Ísf., því að eins og vörumiðlunarn. á að vera skipuð samkv. þessu frv. tel ég, að sjónarmið neytenda komi fram, sem hann telur, að Alþýðusamband Íslands vilji draga fram, en ég vil benda á það, að Samband íslenzkra samvinnufélaga hefir fullkomlega hagsmuni neytenda fyrir augum, ef menn vilja fara út í það. En þessi skipun vörumiðlunarn. er miðuð við það, að hinir tveir helztu þeirra aðila, sem hafa deilt um það, hvernig innflutningnum hefir verið skipt, hafi hvor sinn fulltrúa, og auk þess sé í henni einn oddamaður, tilnefndur af ríkisstj. Ég verð að segja það, að ég held, að það sé ekki gerlegt að fela oddamanni frá neinum öðrum en ríkisstj. að leggja lóðið á vogarskálina. Ég sé því ekki fyrir mitt leyti, að það mæli með þessari brtt. hv. þm. V.-Ísf., að hún byggist á samkomulagi, er Alþfl. hafi gert um þessi mál. Þó mega menn ekki misskilja orð mín svo, að þetta sé gert til þess að útiloka áhrif Alþfl., enda hefir Alþýðusamband Íslands engan fulltrúa í gjaldeyrisn. eins og nú standa sakir. Það er aðeins einn Alþfl.-maður í þeirri n., skipaður af þeim ráðh., sem með þessi mál fer, og er gert ráð fyrir, að svo verði áfram, og með þeirri skipan gjaldeyrisn. held ég, að full trygging fáist fyrir því, að það sjónarmið hv. þm. V.-Ísf., sem vill láta fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands komast í vörumiðlunarn., komi til greina gegnum oddamann frá ríkisstj., ef það kemur ekki nægilega fram með öðrum hætti.