15.03.1940
Efri deild: 18. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (1730)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Brynjólfur Bjarnason:

Ég skal ekki tefja umr. mjög að þessu sinni. Um þetta frv. í heild er það að segja að því er snertir uppbót láglaunaðra starfsmanna, að það eru sömu hundsbæturnar, sem þeim eru hér réttar, og launal. ákveða verkamönnum. En fyrst og fremst er það hneykslanlegt við frv., að þar er gert ráð fyrir, að uppbót sé veitt á hvaða hálaun sem er, svo að maður með 20 þús. kr. árslaun fær nálægt 100 kr. launauppbót á mánuði, samtímis því að ríkisstj. er fengin heimild til að lækka öll framlög um 30% og á sama tíma og mörg þúsund manna svelta. Þetta er hneyksli, og ég tel nærri óhugsanlegt, að þetta verði afgr. þannig frá Alþingi. Það kom reyndar ekki fram hjá hv. frummælanda, að meiningin væri að lagfæra þetta, en ég get ekki trúað því, að það sé þingvilji að láta þetta frv. fara óbreytt í gegn, og ég vil hér með spyrja hv. n., hvort ekki sé ætlunin að lagfæra þetta.

Þó tekur út yfir, ef hafa á það fyrirkomulag, að ekki sé gengið út frá heildarlaunum embættismanna og starfsmanna ríkisins, heldur hverjum launaflokki fyrir sig, þannig að ef maður hefir marga bitlinga, þá sé uppbótin ekki reiknuð af þeim öllum í heild, heldur hverjum um sig, þannig að hann kemst í hæsta uppbótarflokk. Þetta nær engri átt. En ég sé þó, að hv. frummælanda þykir ekki nóg, að frv. gerir ráð fyrir svona gífurlegri launahækkun embættismanna, heldur vill hann láta auka hana enn meira, og þá fyrst og fremst hjá þeim mönnum, sem lifa sem sníkjudýr á ríkissjóði og oft fyrir störf, sem eru til lítilla nytja.