15.03.1940
Efri deild: 18. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (1731)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

Páll Zóphóníasson:

Þar sem ég heyri, að hv. n. ætlar að taka frv. til athugunar, vil ég benda á tvö atriði, sem athuga þarf. Annað er það, hvort láta á uppbótina ná upp úr, til þeirra hæst launuðu. Ég tel það athugavert, hvort ekki ætti að stoppa við ákveðið mark, t. d. 8–9 þús. kr. Annað atriði, sem einnig er vafasamt, er það, hvort ekki ætti að flokka launin í fleiri en 3 flokka eins og gert er í frv. Ég teldi það réttara að láta stigin vera fleiri en 3, t. d. 4 eða 5, byrja á þeim lægst launuðu, en fara lengra niður með uppbótina úr því er komið er upp í 6 þús. kr. laun t. d. Ég beini þessu atriði til hv. n. Ég tel réttara að hafa flokkana fleiri og láta uppbótina ekki ná upp úr.