15.03.1940
Efri deild: 18. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Erlendur Þorsteinsson:

Vegna þeirra umr., sem farið hafa fram í þessari hv. d., þá vildi ég gjarnan gera grein fyrir afstöðu minni til málsins, fyrir hönd fjhn. Eins og grg. frv. ber með sér, er frv. flutt að tilhlutun hæstv. fjmrh. af fjhn. Nefndarmenn hafa þó óbundnar hendur um einstök atriði frv., og til að gera brtt. við það. Þegar n. athugaði frv. og ræddi um að gera breyt. á því, þá tilkynnti ég, að ég vildi fá því breytt þannig, að I. fl. yrði miðaður við 300 kr. laun á mánuði, II. fl. við 300–400 kr. og III. fl. yrði þar yfir. Ennfremur að uppbætur á hálaunum yrðu takmarkaðar, þannig að dýrtíðaruppbótin yrði miðuð við 8 þús. kr. laun á ári. Maður, sem hefði 10 þús. kr. laun, fengi aðeins uppbót af 8 þús., en enga af 2 þús. Samkvæmt 8. gr. verður verðlagsuppbótin greidd eftir á mánaðarlega, en laun starfsmanna eru venjulega greidd fyrirfram. Við ræddum um þetta í n. og það varð að samkomulagi, að hún skyldi flytja frv. óbreytt eins og það barst frá fjmrh., en taka það síðan sérstaklega til meðferðar fyrir 2. umr.

Í 6. gr. er ákvæði, þar sem talað er um, að embættismönnum, sem fá greitt skrifstofufé úr ríkissjóði, sé heimilt að greiða starfsfólki sínu verðlagsuppbót samkv. þeim reglum, sem talað er um í 2. gr., gegn endurgreiðslu úr ríkissjóði eftir reikningi, sem fjmrh. úrskurðar. Ég vil aðeins benda á það við þessa umr., að verðlagsuppbótin gæti orðið mikið hærri en útlit var fyrir, þegar þessum mönnum var ákveðið skrifstofufé. Það gæti því komið til mála, að fjhn. athugaði, hvort ekki bæri að bæta embættismönnum þetta upp að einhverju leyti.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara frekar út í einstök atriði málsins, enda ekkert komið fram við þessa umr., sem ég þarf að svara.