28.03.1940
Efri deild: 23. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (1742)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Frsm. (Magnús Jónsson):

Fjhn. var bent á, að það væri eitt ákvæði í frv., sem ekki væri alveg tvímælalaust, hvernig skilja bæri. Það mun nú að vísu ekki vera mikill vafi á því, en það er þó rétt, að það sé alveg öruggt. Það stendur í 2. gr., að til 1. flokks teljist laun allt að 300 kr., og mætti þá deila um, hvort 300 kr. séu með. Nú mun oftast vera, að ef talað er um „allt að“, er upphæðin ekki talin með, en þar er þó vafi á, og var meiningin, að 300 kr. skyldu vera með. Þegar talað er um 3. flokk, er sagt yfir 400 kr., svo að tilætlunin er, að 2. flokkur sé frá 300 kr. upp að 400 kr. og 400 kr. með, en þetta er ekki alveg skýrt, svo að fjhn. hefir, til þess að bæta úr þessu, borið fram till., sem á að skilgreina þetta alveg nákvæmlega. Till. er á þskj. 225 og hljóðar svo, að í stað orðanna „laun allt að 300 krónur á mánuði“ komi: laun 300 krónur eða minna á mánuði. Till. er aðeins til þess að taka af öll tvímæli í þessu efni.