23.02.1940
Efri deild: 4. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

2. mál, happdrætti

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Eins og gerð er grein fyrir í aths. við frv., er ástæðan til þess, að frv. þetta er fram borið, sú, að einkaleyfi Háskóla Íslands til að reka happdrætti er útrunnið 1 jan. 1944, en eftir áætlun, sem gerð hefir verið, verður þá ekki enn safnað nægilegt fé til að byggja háskólann fyrir, en það er óhjákvæmileg nauðsyn, að þess fjár, sem þarf til að ljúka við bygginguna, verði aflað. Háskólaráð hefir því farið fram á, að í því skyni verði framlengt einkaleyfi háskólans til að hafa happdrætti, eins og frv. fer fram á. Hinsvegar er það tilgangurinn að ljúka við bygginguna á þessu ári og taka til þess lán. Er ekkert því til fyrirstöðu annað en fjárútvegunin, en hún er varla talin möguleg nema háskólinn fái þessa framlengingu á happdrættisleyfinu.

Vil ég mæla með því, að frv. megi mæta velvilja hjá hv. dm. og því verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og hv. fjhn., og vænti ég, að hv. fjhn. hraði afgreiðslu málsins, svo að það megi fá greiðan gang gegnum þingið.