16.04.1940
Neðri deild: 40. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (1756)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Einar Olgeirsson:

Það er sérstaklega aðaltill. í sambandi við þetta, sem er athugaverð, sem sé 2. gr. sjálf. Það, sem þarna er lagt til, er að láta sömu reglu gilda fyrir láglaunamenn eins og gildir fyrir verkamenn og var sett með kaupgjaldslögunum í fyrra. Eftir þessu ákvæði á að reikna dýrtíðarvísitöluna út ársfjórðungslega eftir á; þannig hefir vísitalan verið reiknuð út fyrir fyrstu þrjá mánuði þessa árs 9% og 15,75% fyrir næstu 3 mánuði. Launauppbótin, sem menn fá, verður þannig raunverulega lægri en dýrtíðin raunverulega segir til um.

Við sósíalistar höfum lagt fram strax í byrjun þessa þings frv., sem fór fram á að tryggja verkamönnum annaðhvort rétt til að beita sínum samtökum til að knýja fram kauphækkun, eða að öðrum kosti, ef hvorki verkamenn né atvinnurekendur vildu beita samtökunum í þessu efni, þá yrði verkamönnum tryggð kauphækkun, sem samsvaraði dýrtíðinni, og að sú hækkun kæmi fram mánaðarlega eftir á í staðinn fyrir það, sem nú er. Nú getur maður sagt hvað verkamenn snertir, að þeir hafi þrátt fyrir ákvæði gengislaganna möguleika til að knýja það fram, að tillit sé til þeirra tekið. Það er vitanlegt, að þó að kaupgjaldið sé ákveðið með l., þá er ekki hægt að knýja menn til þess að vinna. Ef verkamenn tækju sig saman um að leggja niður vinnu, þá er hægt að brjóta framkvæmd l. á bak aftur, án þess að brjóta í bága við bókstaf þeirra. Það er hægt að knýja atvinnurekendurna og ríkisvaldið til þess að láta undan í þessum efnum, eins og sýnt hefir sig, að sjómenn hafa hvað eftir annað knúið ríkisstj. til þess að breyta þessum l. Hvað starfsmenn ríkisins snertir, þá er öðru máli að gegna. Þeim er bannað að gera verkföll. Þeir eru sviptir þeim litlu réttindum, sem verkamenn geta nú haft. Starfsmenn ríkisins verða þess vegna eingöngu að treysta á sanngirni ríkisvaldsins. Nú vil ég sérstaklega geta þess, að fjöldi af starfsmönnum ríkisins eru verst launuðu stéttirnar í landinu. Ég skal ekki fara út í neinar sérstakar heimspekilegar hugleiðingar í þessu sambandi, hvort þetta stafar af því, að ríkisvaldið hefir svipt þessa menn verkfallsréttinum, og það hafi þess vegna ekki þurft að óttast samtök þessara manna. Ef svo væri, sem ekki er ósennilegt, þá væri nú tækifæri til þess fyrir ríkisvaldið að sýna, að það vilji ekki misnota þetta bann á verkföllum, sem það sjálft hefir sett, og það getur ekki sýnt það á annan hátt en gera almennilega við þessa starfsmenn. Ég álít þess vegna, að í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, þá eigi að gera breyt. á 2. gr. í þá átt, að tryggja a. m. k. þeim, sem eru í 1. og 2. flokki, að þeir fengju uppbót, sem samsvaraði því, sem dýrtíðin mun vaxa. Og ég mun annaðhvort við þessa umr. eða 3. umr. koma með brtt., sem að þessu miða. Ég skal líka geta þess í þessu sambandi, að það er vitalega gengið út frá því, ef hún yrði samþ., að þá ættu verkamenn kröfu á samsvarandi hækkun.