16.04.1940
Neðri deild: 40. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (1758)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

Skúli Guðmundsson:

Fyrir rúmu ári síðan voru sett hér á Alþ. l. um gengisskráningu og ráðstafanir í því sambandi. Með þeim l. var breytt nokkuð gengi íslenzkrar krónu, en það var í þeim tilgangi gert að bæta fyrir framleiðslunni í landinu, sérstaklega sjávarútveginum, sem hafði átt við mikla erfiðleika að stríða á undanförnum árum. Inn í þessi l. voru sett ákvæði um kaupgjald verkamanna og sjómanna. Einnig náðu þau til nokkurra iðnaðarmanna. Því var yfirlýst um leið, að mig minnir af öllum flokkum, sem að þessari lagasetningu stóðu, að þó þeir samþ. að gera þessar ráðstafanir, þá væri það ekki skoðun þeirra, að yfirleitt ætti að skipa kaupgjaldsmálum með löggjöf. Hinsvegar var þetta sett í l. af því, að mönnum þótti nauðsynlegt bæði að tryggja vinnufriðinn í landinu og eins til þess að koma í veg fyrir, að sá hagnaður, sem fengist af gengisbreytingunni fyrir útgerðina, yrði allur af henni tekinn með ósanngjörnum kaupkröfum, sem ekki væri hægt að standa í móti.

Á siðari hluta þings 1939, um eða fyrir áramótin seinustu, voru gerðar breytingar á gengi, skráningarlögunum og þar á meðal á kaupgjaldsákvæðunum vegna styrjaldarástandsins og gengisbreytinga í sumum viðskiptalöndum okkar. Nú liggur fyrir frv. frá ríkisstjórninni um verðlagsuppbót til embættismanna og starfsmanna ríkisins, og hefir fjhn. skilað áliti um það. Ég veit, að margir þeirra manna hafa þörf fyrir slíka uppbót. En þá verður ekki hjá því komizt að líta til þess, hvað aðrar stéttir í þjóðfélaginu eiga við að búa, og líkur fyrir því, hvort þær fái tekjuauka til þess að mæta dýrtíðinni. Hvernig lítur út fyrir atvinnuvegunum í landinu? Verður nokkur hækkun á tekjum bænda á þessu ári? Allt er í óvissu um það. Þeir, sem selja framleiðslu sína innanlands, t. d. mjólk, fá líklega alls enga nettó-tekjuhækkun. Sú hækkun, sem orðið hefir á útsöluverði, nægir e. t. v. ekki einu sinni til að mæta þeim aukna kostnaði, sem lagzt hefir á framleiðsluna vegna styrjaldarástandsins. Engu meiri vissa er fyrir því, að nettótekjur þeirra, sem framleiða fyrir erlendan markað, fari vaxandi. Sumar vörur þeirra, svo sem ull og gærur, hafa hækkað nokkuð, aðrar mjög lítið samanborið við dýrtíðina. Við skulum þá líta til útgerðarmanna. Að vísu hafa togararnir fengið gott verð fyrir ísfisk í Bretlandi og haft af því mikinn hagnað þrátt fyrir aukinn tilkostnað. En undanfarin ár hafa þeir stöðugt verið reknir með tapi og allt í óvissu um markaðinn í framtíðinni, og t. d. með sölu á saltfiski lítur mjög óvænlega út. Verðhækkun, sem orðið hefir á bátafiski, gerir víst ekki betur en mæta auknum útgerðarkostnaði þar, enda mjög lélegur afli í flestum verstöðvum. Í Vestmannaeyjum t. d. hefir hann alveg brugðizt. Gengisbreytingar, sem orðið hafa á Englandi seinustu mánuðina, valda útflytjendum miklu tjóni. Sjómenn á togurum og millilandaskipum hafa að vísu háar tekjur vegna áhættuþóknunar, svo að þeir munu vera með tekjuhæstu mönnum hér á landi. En í verstöðvunum eru flestir sjómenn ráðnir upp á hlut og óvíst, hvort þeirra tekjur verða nokkru hærri en áður var. Sama getum við sagt um verkamenn. Þrátt fyrir þær uppbætur, sem þeim eru veittar með gengislögunum, er alls ekki víst, að atvinnan endist þeim svo, að þeir beri meira úr býtum eftir en áður. Þegar afli bregzt, dregst atvinna þeirra saman, og rætt hefir verið um afleiðingar þess, að saltfisksverkun leggst niður að kalla. Þetta allt vildi ég benda á til samanburðar, þegar rætt er um kaupuppbót til fastlaunamanna.

Út af samanburði hæstv. fjmrh. á fastlaunamönnum og verkamönnum vildi ég benda á, að þar er ólíku saman að jafna. Verkamenn hafa enga tryggingu fyrir meiri árstekjum, þó að kaup hækki. Fastlaunamenn eiga að fá kauphækkun sína óskerta, hvernig sem veltur. En það verður okkur að vera ljóst, að framleiðslan er undirstaðan, sem allt veltur á.

Ég tel brtt. fjhn. til bóta og mun greiða þeim atkv. En mér finnst þörf frekari breytinga. Ég tel óhjákvæmilegt, að þessar kaupuppbætur verði háðar því skilyrði, að einhver hækkun verði á aðalframleiðsluvörunum, og ég áskil mér rétt til að flytja um það breytingartillögu við 3. umr., en vildi láta þetta sjónarmið koma fram nú þegar.