16.04.1940
Neðri deild: 40. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (1759)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

Jón Pálmason:

Herra forseti! Í nál. á þskj. 398 er tekið fram, að skoðanir nm. séu skiptar um þetta mál. Mér t. d. var ómögulegt að fella mig við frv. eins og það kom frá hv. Ed. Þó að ég féllist á að ganga með brtt. n., er ég ekki ánægður með að afgr. frv. þannig. Ég hefði talið réttast, eins og nú horfir, að engin dýrtíðaruppbót yrði ákveðin nema til þeirra, sem lægst eru launaðir og hafa fyrir fjölskyldu að sjá. En samkv. reynslu minni frá síðasta þingi þýðir ekki að ræða slíkt nú. Ríkisstj. var gefin heimild til að greiða embættismönnum sömu uppbætur og ákveðnar voru fyrir verkamenn. Þó vildi ég binda uppbótina við ákveðið launahámark, en með till. minni munu ekki aðrir hafa greitt atkv. en hv. þm. Borgf., hv. þm. Dal. og hv. þm. A.-Sk. Nú get ég tekið undir flest það, sem hv. þm. V.-Húnv. (SkG) sagði í síðustu ræðu sinni. Ég tel enga menn hafa betri aðstöðu á landinu en fastlaunamenn hins opinbera. Áður en þeim er almennt veitt uppbót, ætti að byrja á að bæta hag þeirra, sem lakar eru settir, svo sem sjómenn og óbreyttir verkamenn, sem hafa óvissa atvinnu, og smáframleiðendur til sjávar og sveita. Þetta er aðalsjónarmið mitt. Brtt. n. fylgi ég, því að þær eru til bóta. En þær ná allt of skammt. Nú hefir fjhn. bundið uppbótarhámarkið við 7800 kr. árstekjur. Ég verð að segja, að þeir, sem þær tekjur hafa, eru svo vel settir, að ekki er ástæða til að bæta þeirra kjör. Af ríkislaunuðum mönnum munu það vera um 150 talsins, og eins og þetta var 1938–39 munu þeir hafa um 10 þús. hver að meðaltali, þ. e. hálfa aðra milljón samlagt á ári. Miðað við, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og það kom frá hv. Ed., og að uppbótin verði í árslokin núna komin upp í 13% í hæst launaða flokknum, — hún er að vísu mun lægri þar ennþá, en í I. fl. er hún þegar komin í 15,75% —, þá eru 15% af 11/2 milljón 225 þús., og engar líkur eru til, að uppbót til þessara manna yrði minni samtals en 175 þús. kr. Enginn hefir reiknað út, hve miklu það kunni að muna, ef brtt. n. viðvíkjandi uppbót til einhleypinga yrði samþ., en allmikið er það og réttlátur sparnaður. Aftur á móti tel ég eðlilegt, að tekið sé tillit til barnaframfæris.

Á fjárlögum yfirstandandi árs er ekki ætlaður eyrir til þessara hluta, og ekki heldur til þeirra kaupuppbóta, sem samþ. voru í lok síðasta þings. Og þær 350 þús. kr., sem settar hafa verið á fjárl. næsta árs, eru alls ónóg upphæð. Ef frv. yrði samþ. eins og það er, mundi kostnaður af því fara nær milljóninni en 350 þús. Þetta ættu menn að gera sér ljóst, áður en þeir fara að greiða atkv. um brtt. fjhn.

Ég ætla ekki að grípa fram fyrir hendur hv. frsm. að svara hv. þm. V.-Ísf. og hæstv. fjmrh. Út af ræðu hv. þm. V.-Húnv. verð ég að taka fram, að fjhn. treysti sér ekki til að fara inn á þá braut, nema taka um leið í gegn allar ákvarðanir, sem Alþ. hefir tekið um kaup verkamanna og annara, sem ekki eru á föstum launum, og miða einnig þar við hag framleiðslunnar á hverjum tíma.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta, nema tilefni gefist, og vænti þess, að hv. þdm. skilji afstöðu mína, og að hún er háð þeirri reynslu, að meiri hl. þm. í öllum flokkum virðist staðráðinn í, að verðlagsuppbætur skuli veittar.