16.04.1940
Neðri deild: 40. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (1765)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Hv. frsm. meiri hl. fjhn. virðist leggja áherzlu á, að það frv., sem hér liggur fyrir, sé sérstaklega frv. mitt, eins og hann telji nánast, að ég hafi borið þetta frv. fram sem „prívat“maður, svo virðulegt, sem honum þykir það. Að því leyti, sem hann hefir tekið fram, að ástandið sé breytt frá því, sem var, þegar frv. var borið fram, þá er þess að gæta, sem hann minntist ekki á, að í frv. því, sem ég fór fram á að fá heimild til að lækka framlag til atvinnuveganna, þá er og lagt til, að ég fái heimild til að lækka dýrtíðaruppbótina. Þessa hefði mátt geta, og þá verður ósamræmið í þessu efni heldur ekki svo gífurlegt sem hann vili vera láta. En ef kringumstæðurnar hafa breytzt svo mjög síðan fjárl. voru samþ., þá virðist svo sem Alþingi verði að taka afleiðingunum af því með því að láta lækkunarheimildina ná einnig til ársins 1940, þar sem gert var ráð fyrir, að fyrst myndi verulega slá í harðbakka á árinu 1941, en nú sýnir það sig, að svo getur orðið þegar á þessu ári, og það er því langt frá, að það sé nokkuð hneykslanlegt við það, að frv. miði að því, að dýrtíðaruppbótin nái í jöfnu hlutfalli til allra embættismanna og starfsmanna ríkisins. Og um það, að slíkt sé hneykslanlegt nema að vissu marki, vísa ég til gömlu dýrtíðaruppbótarlaganna frá 1919; þar var ákveðið hámark, en að öðru leyti skyldi hún fara eftir barnafjölda eða fjölskyldustærð. Í þessu sambandi vil ég benda á, að þarna er ekki gerður nema hálfur leikur í till. hv. meiri hl. fjhn., þar sem talað er um þá, sem hafa fyrir börnum að sjá, en þar er ekkert ákveðið um, hvað skuli telja börn. Á meiri hl. hv. fjhn. þar við, að börn skuli þau talin frá fæðingu til 16 ára aldurs, eins og venjulega er ákveðið? (SvbH: Börn á hvaða aldri sem er). En þarna þarf frekari skýringa við. Á e. t. v. að telja fólk börn til 20 eða 30 ára aldurs, á t. d. að telja það börn, ef menn hafa afkvæmi sín á sínum vegum atvinnulaus, á hvaða aldri sem þau eru, og á að taka tillit til þess í sambandi við þá barnastyrki. sem þarna er talað um? Staðfestir hv. frsm. n. það? En hvernig halda menn þá að verði framkvæmdin á þessum 1., ef skilja á þau þannig? Það verður þá að fá sérstakar upplýsingar um hvern einasta starfsmann, hvaða fólk hann hefir á sínu framfæri, ekki einasta skylduómaga, heldur og annað fólk, og taka tillit til þess alls, þegar ákveðin er uppbót hans. Ég er hræddur um, að það verði frágangssök að framkvæma l. með þessu móti. Það verður að afla svo margvíslegra upplýsinga um allmikinn fjölda manna, að hætt er við, að auka verði talsvert starfskraftana á þeim skrifstofum, sem um þetta eiga að sjá, bæði í sambandi við ríkisbókhaldið og ríkisfjárhirzluna og einnig úti um land, til þess að hafa eftirlit með því, hvað talið er fram hjá hverjum einstaklingi. Annars vil ég vísa til þess, að frv. er upphaflegan samið með hliðsjón af gömlu dýrtíðaruppbótarl. Þar er að vísu ekki sett neitt hámark á laun, sem skuli verða dýrtíðaruppbótarinnar aðnjótandi, en gert var ráð fyrir, að það myndi verða tekið til greina við meðferð málsins á A1þingi. Ég skal ennfremur geta þess, að burtséð frá því, hvar hámarkið verður ákveðið, hvort sem það verður 4, 5, 6 eða 7 þúsund, þá er þetta ekki sérstaklega frv. fjmrh., heldur ríkisstj. allrar, og hún leit svo á, að samkv. l., sem samþ. voru á síðasta þingi, þá skyldi frv. vera þannig úr garði gert. Ennfremur vil ég vísa til þess, að hv. Ed. hefir haft sömu skoðun, þar sem hún hefir afgr. málið að sínu leyti. Ég endurtek það, sem ég hefi sagt áður, að ég tel ekki réttlátt, að dýrtíðaruppbót sé aðeins greidd á lægstu launin, og það meira að segja aðeins að nokkrum hluta, eins og gert er ráð fyrir í till. hv. meiri hl. fjhn., heldur eigi líka að taka tillit til þess, hve há laun hverrar stéttar eru í hlutfalli við það, hver störfin eru og hve ábyrgðarmikil og hvernig þau eru launuð samanborið við önnur laun hjá embættismannastéttinni. Sérstaklega tel ég það athugavert í till. hv. meiri hl. n., að þeir vilja skilja á milli manna þannig, að þeir, sem ekki hafa fyrir neinum að sjá, eigi að njóta dýrtíðaruppbótar á laun allt að 360 kr.. en ef á að fara að úthluta þessari uppbót beinlínis eins og þurfamannastyrk, þá er ég viss um, að það eru margir starfsmenn ríkisins, sem hafa laun innan við 360 kr., sem geta vel komizt af með það sem einhleypt fólk og miklu betur en margt fjölskyldufólk, sem hefir hærri laun.