18.04.1940
Neðri deild: 44. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (1781)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Jón Pálmason:

Þegar brtt. fjhn. voru felldar hér í dag, kom mér það nokkuð á óvart, af því að ég bjóst við, að hv. þm. hefðu gert sér það ljósa grein fyrir því ástandi, sem nú ríkir í fjármálum okkar, að þeir létu sig varla henda að fella svo hóflegar brtt. sem þessar voru. En þegar ég fór að hugsa betur um þetta, komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta væri í sjálfu sér eðlilegt, þar sem þetta frv. er borið fram af ríkisstj., sem er allra flokka stjórn, og það er búið að ganga gegnum Ed. með sæmilegu samkomulagi. Það er að vísu svo, að sumir menn og meira að segja sum blöð ríkisstj. hafa viljað koma því inn hjá þjóðinni, að þetta mál væri mál fjmrh. eins. Þessi afstaða er frá mínu sjónarmiði ekki drengileg, í fyrsta lagi af því, að þetta er eitthvert óvinsælasta málið, sem nú liggur fyrir þ., úti um landsbyggðina, og í öðru lagi vegna þess, að það er vitað, að þetta mál er mál allrar ríkisstj. Og því fremur er ástæða til þess fyrir okkur, sem erum í stjórnarflokkunum og erum andvígir þessu máli, að tala hlífðarlaust um það við stj. án tillits til flokksafstöðu, persónulegrar vináttu eða nokkurs annars en þess, hvað við teljum vera réttlátt, miðað við það fjárhagsástand, sem nú ríkir í okkar landi. Það má segja, að þetta mál markar fremur flestum öðrum, hvaða fjármálastefna það er, sem rekin er á Alþ. Og það markar hana greinilegast fyrir það, að með þessu frv. er verið að bæta kjör þeirra manna í þjóðfélaginu, sem áður voru bezt settir. Það hlýtur að rifjast upp fyrir okkur sú spurning í sambandi við þetta mál, sem ætti raunar að vera alltaf rík í okkar huga, sem sé, hvaða fjármálastefna það sé, sem er réttlætanleg í þessu landi. Ég get markað þá fjármálastefnu, sem ég tel réttasta með örfáum orðum. Ég tel þá eina stefnu rétta í fjármálum, að framleiðslan geti borið sig og skilað arði, til þess að sem allra flest af vinnandi fólki í landinu geti haft vinnu við framleiðslustörf. Það eru hinsvegar 3 meginskilyrði fyrir því, að framleiðslan geti borið sig. Það er í fyrsta lagi tíðarfarið og aflabrögðin við sjóinn. Í öðru lagi fer það eftir því, hvernig markaðurinn er fyrir afurðirnar, og í þriðja lagi fer það eftir því, hvaða gjöld eru lögð á framleiðsluna í sambandi við hina opinberu félagsstarfsemi. Í sambandi við þetta er þá ekki einasta um að tala skatta, tolla og útsvör, heldur og líka kaupgjald, vexti og annað varðandi nauðsynjar til framleiðslunnar. Um tvö fyrri atriðin, tíðarfarið og aflabrögðin annarsvegar og markaðsverðið hinsvegar, er það að segja, að við þetta ráða engin völd hér á landi. Þá er það aðeins þriðja atriðið, sem sé þau þyngsli, sem á framleiðslunni hvíla, sem viðráðanlegt er. Ég tel þess vegna, að höfuðskilyrðið fyrir réttri fjármálastefnu sé, að þessum útgjöldum sé haldið svo mikið niðri sem unnt er og skynsamlegt má telja. Ég er sannfærður um, að þessa hefir ekki verið gætt eins og vert er, og þess vegna sé komið eins og komið er fyrir okkar íslenzku framleiðslu. Og það var einmitt með tilliti til þessa, að þjóðstj. var mynduð. En ég verð að endurtaka það nú, sem ég hefi áður sagt, að ég tel, að sú stefna, sem mörkuð var með myndun þjóðstj., hafi verið þverbrotin á síðasta þ., og hún er enn brotin nú, ekki sízt með flutningi þessa frv., sem hér liggur fyrir. Það hefir smátt og smátt verið að skapast það ástand á undanförnum árum, að allir hafa keppt um að komast í fastlaunaðar stöður í okkar þjóðfélagi. Og þetta er fyrst og fremst undirrótin undir þeirri eyðslu, sem átt hefir sér stað á undanförnum árum. Það er ekki um að villast, að það hefir verið rétt, sem hv. 1. þm. Reykv. tók fram fyrir nokkrum árum, að það, sem þyrfti að gera, væri að minnka kaupgetuna frá því, sem nú er, til þess að hægt væri að halda skynsamlegri fjármálastefnu. Þetta lætur einkennilega í eyrum, en er samt rétt, enda er það aðalatriðið að halda kaupgetunni í samræmi við það, sem framleiðslan þolir á hverjum tíma. Frá þessu hefir verið brugðið og þess vegna hefir farið eins og farið hefir. Ég skal ekki fara út í að skýra þetta miklu nánar, en ég vona, að þeir hv. þm., sem hér eru og hafa tekið eftir því, sem ég hefi sagt, sjái, að það er ákveðin stefna, sem ég tel, að eigi að fara eftir í sambandi við afgreiðslu fjármála. Og þá kem ég að þeim einstökum atriðum, sem hér eru til umr. og deilan stendur um í sambandi við afgreiðslu þessa máls.

Ég benti á það hér í gær og færði rök að því, að sú till., sem meiri hl. fjhn. ber fram um að setja hámark á verðlagsuppbótina, sem miðist við 7800 kr. laun á ári, hefði í för með sér a. m. k. 175000 kr. lækkun á þessu frá því, sem frv. í sinni núv. mynd gerir ráð fyrir. Ég byggði þetta á því, að það munu vera um 150 starfsmenn ríkisins, sem hafa launatekjur þarna fyrir ofan. Annað atriði, sem athugavert er í þessu sambandi, er það, að í fjárlögum þessa árs er ekki gert ráð fyrir þessum gjöldum, og það, sem kann að verða borgað hér samkvæmt þessu frv., verður að borgast út auk þeirra gjalda, sem gert er ráð fyrir í fjárlögum. Þá ber að taka tillit til þess, að ekki er ætlað til þessara hluta nema 350000 kr. í þeim fjárlögum, sem afgr. hafa verið fyrir árið 1941, en ef frv. verður endanlega samþ. í því formi, sem það var samþ. við 2. umr. hér í d., þá má frekar gera ráð fyrir, að þessi útgjöld nemi 1 millj. kr. heldur en 350000 kr. Þetta vildi ég mega biðja hv. þm. að athuga, þegar þeir greiða atkv. um brtt. fjhn., sem hér liggja fyrir, og aðrar till., sem fram hafa komið.

Þá skal ég með örfáum orðum minnast á brtt., sem þeir hv. þm. V.-Húnv. og hv. 2. þm. Árn. hafa flutt. Ég skal ítreka það, að ég álít þá stefnu, sem kemur fram í þeirra till., þá réttu stefnu í launamálum hér á landi, ef breyt. verður á annað borð á þeim gerð. Hinsvegar er það að segja um þessa till., að eins og formið á henni er, nær hún engan veginn þeim tilgangi, sem ætlazt er til, og þeim tilgangi, sem 1. flm. talaði um, þegar hann mælti fyrir till. Meiri hl. fjhn. hefir ekki álitið þessa till. svo mikilsverða, að hann mæli með, að hún verði samþ. Og sá galli er við samþykkt hennar, að með því mundi breytast sá grundvöllur, sem að öðru leyti er byggt á. Hvort hann breyttist í þá átt að lækka uppbótina eða hækka hana, er ekki með öllu víst. En tilgangurinn er þó sá, að þetta verði til að lækka hana, því að það er hugmyndin. En hitt er heldur ekki óhugsandi, af þeirri ástæðu, að hér er miðað við útflutningsverð, en ekki framleiðsluverð á vörum. Verð á vörum á innlendum markaði þarf að mínu áliti að taka hér með í reikninginn.

Það er rétt hjá hv. þm. V.-Húnv., að það er ekki ómaklegt, að þessi regla komi fyrst niður á mönnum, sem hafa föst laun. En ég tel, að hún eigi yfirleitt að vera gegnumgangandi á þessu sviði. En til þess að hún geti verið það, þarf mjög mikinn og vandlegan undirbúning að hafa áður en reglur um þetta eru settar, til þess að þær geti verkað réttlátlega.

Það eru nokkur ár síðan ég flutti frv. hér á hæstv. Alþ. um breyt. á verðlagsskrárl. Því var síðast vísað til ríkisstj. til frekari rannsóknar. Tilgangurinn með því var að koma á þessari reglu, sem hv. þm. V.-Húnv. er hér nú að ympra á. Og með því að undirbúa þetta vel, væri hægt að koma þessu í framkvæmd á réttlátan hátt.

Þá vil ég segja örfá orð um breyt., sem nú síðast var talað fyrir af hv. þm. N.-Ísf. Það er ekki rétt skilið hjá honum, að það sé meiningin með till. meiri hl. fjhn., að það séu aðeins laun úr ríkissjóði, sem átt er við, heldur er ætlunin með þeirri till., að það séu laun manna og allar tekjur samanlagt, sem hlutaðeigendur fá, bæði úr ríkissjóði og annarstaðar frá. (VJ: Líka tekjur af búskap?). Jafnvel þó svo sé; ef maður t. d. hefir 6 þús. kr. í laun úr ríkissjóði og bú við hliðina, sem hann hefir af 2–3 þús. kr. í tekjur að frádregnum rekstrarkostnaði, þá er alveg eðlilegt að taka það með. En það kann vel að vera, að þetta sé gleggra og komi hreinlegar út með því að samþ. brtt. hv. þm. N.-Ísf., og get ég fallizt á það, ef mínir meðnm. geta verið sammála um það, til þess að þetta orki ekki tvímælis. Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða meira um þetta mál. En það leiðir að því, sem ég hefi tekið fram sem mína skoðun á því, að ég sé mér ekki fært að samþ. þetta frv. eins og það liggur fyrir. Og mér þætti það of langt gengið að samþ. það, þó að brtt. hv. meiri hl. fjhn. væru samþ. Þær ganga að vísu töluvert skemmra heldur en brtt., sem felldar voru hér í dag. En miklar umbætur gerðu þær eigi að síður á frv.