18.04.1940
Neðri deild: 44. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (1784)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Eiríkur Einarsson:

Ég lét þess getið við atkvgr. þessa máls við 2. umr. þess í dag, að mér væri skapi næst, að það mætti fá þá afgreiðslu, að því væri vísað til ríkisstj., og hæstv. ríkisstj. tæki ákvarðanir um þessi málefni eins og hún hefir lagaheimild til. Því að í gengisl. á síðasta þingi var henni veitt slík heimild, að skipa þessum málum með reglugerð. En ríkisstj. hefir ekki hagnýtt sér þetta, heldur lagt fram þetta frv. fyrir þingið, sem nú er til umr. og margskonar ágreiningur er um. Fyrst og fremst hygg ég, að stj., skipuð fimm mönnum úr öllum aðalflokkum þingsins, hafi styrk til þess að þekkja til þess betur en Alþingi í heild og sjá, hverju fram vindur, og sjá um nauðsynlegar framkvæmdir þessara mála. Ég ætlast til þess, þegar þjóðstjórn situr á rökstólum, að hún geri sitt bezta um úrlausn þessa máls, og ekki yrði síður áhættu undirorpið að fá þá handahófsniðurstöðu, sem yrði, ef þetta yrði lögfest nú hér á Alþingi, því að enginn er svo spáfróður, að hann sjái, hvaða niðurstöður muni verða. Hér hefir risið upp kappsmál milli hagfræðinga, sem hafa staðið á blístri af þekkingu, og ég er a. m. k. jafnnær eftir, og þá greinir mjög á. Mikið af þeim orðum er sprottið af erfiðleikaástandi og aðhlynningarhug, en mikið er hreint og beint sagt af kjósendadekri og umhugsun um, hvort það er vinsælt eða óvinsælt mál á að heyra úti um landsbyggðina.

Ég tel því rétt, að stj. hafi þetta mál með höndum og ráði fram úr því á þann hátt, sem henni þykir réttlátast og sanngjarnast. Hún mundi þá geta breytt þeim reglum, sem um það væru settar, ef nauðsyn bæri til. Niðurstöður Alþingis nú geta aftur á móti ekki verið annað en handahóf, og ef ástandið breyttist fyrir aukna dýrtíð eða stórversnandi afkomu ríkissjóðs, þá væri stj. samt sem áður við þær ákvarðanir bundin og gæti ekki breytt þeim nema þá með bráðabirgðalögum. Ef þessi uppástunga mín, sem ég geri hér með að till. minni, er aftur á móti samþ., þá er þetta allt saman miklu lausara og hægt að haga málum eftir því, sem heppilegast er á hverjum tíma.