18.04.1940
Neðri deild: 44. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í B-deild Alþingistíðinda. (1787)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Jón Pálmason:

Það eru nokkur atriði, sem ég vil taka fram í sambandi við ræðu síðasta ræðumanns.

Í fyrsta lagi er það misskilningur af hans hálfu, að ég hafi ákveðið afstöðu mína gegn brtt. hans. (SkG: Þá bið ég afsökunar, en ég skildi það svo). En ég vil ítreka það, að þótt ég telji þessa till. stefna í rétta átt, þá er hún svo áhrifalítil, að ég tel það skipta litlu máli, hvort hún verður samþ. eða ekki. Því það er ekki gert ráð fyrir að draga frá meira en hálfan þann mismun, sem kann að koma út við þann útreikning, sem þar er gert ráð fyrir. Það er líka, eins og hv. þm. játaði, mjög mikill ágalli á till., að ekki eru teknar með vörur á innlendum markaði. En þótt ég telji till. svo áhrifalitla sem útlit er fyrir, þá getur hugsazt, að samþykkt hennar hefði það í för með sér, að málið fengi nánari athugun og framgang síðar. Ég tel, að þess geti ekki orðið langt að bíða, að launamálin í heild verði tekin til athugunar, vegna þess afskaplega misræmis, sem er í launagreiðslum, hvað sem líður launahæðinni, og þá vona ég, að einmitt þetta atriði verði sérstaklega tekið til athugunar.

Hv. þm. V.-Húnv. vill halda því fram að stj. hafi ekki öll borið fram þetta frv., heldur aðeins hæstv. fjmrh. Ég hefi alltaf litið svo á og þykist þess fullviss, að stj. öll standi að þessu máli, og ég tel, að allar þessar tilraunir til að koma á hæstv. fjmrh. þeim óvinsældum, sem hljóta að vera í sambandi við þetta mál, séu mjög ómaklegar, þegar það er sannað, að málið hefir gengið ágreiningslaust í gegnum aðra d., og annar ráðh., sá sem hefir hér atkvæðisrétt, hefir greitt atkv. gegn þeirri brtt. fjhn. í dag, sem hafði mesta þýðingu.

Þá skal ég ofurlítið minnast á till. hv. 8. landsk. (EE) um að vísa frv. til stj. Mér sýnist, að það sé ekki næsta mikill munur, hvort það er gert eða frv. samþ. eins og það liggur fyrir, því að það er upplýst, að stj. hefir borið það fram í þeirri mynd, sem það hefir nú, og er því engin ástæða til að ætla, að hún muni skipa þessum málum með reglugerð á annan hátt en hún hefir lagt til í þessu frv.