18.04.1940
Neðri deild: 44. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (1788)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Ég ætla ekki mikið að blanda mér inn í þessar umr. Ég lýsti því yfir við 1. umr. þessa máls, eins og var líka lýst yfir af hv. frsm. í Ed., að þetta mál er flutt af stj. allri. Stj. var veitt heimild með 1. um gengisskráningu og ráðstafanir í því sambandi að greiða verðlagsuppbót starfsmönnum ríkisins og stofnana þess samkv. reglugerð, en þegar það varð úr, að þingið kæmi svo fljótt saman sem ákveðið var í lok síðasta þings, þá kom stj. allri saman um það, að rétt væri að láta þingið fá málið til meðferðar og endanlegrar afgreiðslu, með því að það virtist ekki þurfa að seinka framkvæmdinni svo, að það skaðaði. Innan stj. var talað um þann möguleika, að setja hámark á dýrtíðaruppbótina, og sömuleiðis þann möguleika, að hafa dýrtíðaruppbót embættismanna og starfsmanna ríkisins eitthvað lægri en samkv. l. um gengisskráningu. Hinsvegar þótti rétt að láta þingið taka ákvörðun um, hvernig þetta yrði sett.

Við flutning málsins í Ed., og ég ætla einnig við 1. umr. hér, vakti ég athygli á hvorutveggja og benti einnig á í sambandi við það, að rétt væri að hafa verðlagsuppbótina til þessara starfsmanna nokkru lægri en þeirra, sem fá uppbót samkv. gengisskráningarlögunum, en þó væri þess að gæta, að ýmsir, sem tækju uppbót samkv. þeim l., væru engu lakar settir en fjöldi af starfsmönnum ríkisins, þ. e. a. s. þeir hefðu fasta atvinnu, sem kallað er, og margir hærri tekjur en fjöldi af starfsmönnum ríkisins, svo að þar væri engan greinarmun hægt að gera.

Að því er hámarkið snertir, má segja hið sama bæði um þær stéttir, sem laun eiga að taka eftir gengisskráningarlögunum og eftir þessu frv., ef að lögum verður. Í báðum flokkum geta launin orðið allhá, og sé hámark sett, ætti það að vera jafnt fyrir báða. Annars er augljóst, að það er litið á þessi mál frá tveim sjónarmiðum, annaðhvort þannig að uppbótin eigi, eins og orðið segir sjálft, að bæta upp dýrtíðina, veita launþegunum, ef unnt væri, sömu kaupgetu og þeir höfðu áður, eða þannig að uppbótin sé hallærishjálp, miðuð við það, að menn geti lifað. Frá fyrra sjónarmiðinu séð er ekki nema eðlilegt, að hærri uppbætur að krónutali fáist á há en lág laun. Sú hugsun þurfti ekki að koma neinum á óvart, því að hún felst í sjálfri grundvallarhugsun dýrtíðaruppbótarinnar. Vilji menn hinsvegar snúa þessu upp í e. k. neyðarhjálp, þá það, en með því er komið inn á allt annað svið. — Það má vel taka tillit til erfiðleika ríkissjóðs á annan veg, t. d. með því að veifa heimild til að skera niður uppbæturnar að svo miklu leyti sem fjárhagur ríkissjóðs leyfir ekki að þær verði greiddar. Þann niðurskurð mætti þá hafa mismunandi, minnstan á lágum launum, vaxandi með launahæð. Mér hefði fundizt það eðlilegasta meðferðin að fela ríkisstj. að lækka uppbótina eftir getu ríkissjóðs og miklu sæmilegra úrræði en að Alþingi geri nú þegar slíkar breytingar sem lagt er til yfir alla línuna.

Málið er flutt af ríkisstj. í heild og með samkomulagi innan hennar. Mér liggur í léttu rúmi, þó að einstakir hv. þm. vilji reyna að koma ábyrgðinni af þessu sem mest á mig, ef þeir halda, að sér muni þá að borgnara í kjördæmum sínum.