22.04.1940
Efri deild: 44. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (1807)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég vildi gera grein fyrir atkv. mínu í þessu máli. Mig undrar nokkuð, hvernig menn taka í þetta mál. Ég hygg að eins og málið fór frá þessari hv. d. til Nd. hafi raunverulega verið farin sú meðalleið, sem flestir hefðu átt að geta sætt sig við. Nú er hér deilt um það, hvort eigi að binda verðlagsuppbótina við 8 þús. kr. tekjur eða ekki. Það hafa komið fram ýms rök um það, hversu fráleitt þetta getur orðið í framkvæmdinni. Til dæmis: Maður hefir í laun frá ríkinu 5 þús. kr. Svo fær hann 3 þús. kr. í tekjur af búi, en meginið af þeim fer í kostnað. Ég efast um, að hægt sé, eftir orðalagi frv., að komast hjá því að telja það allt sem tekjur. Sá maður fær enga uppbót. Þessi maður hefir 8 eða 10 menn fram að færa. Hverskonar ranglæti á að fremja gagnvart þessum manni, þó að hann vinni hjá ríkinu? Það er skapað óréttlæti á mörgum sviðum, ef þessari reglu er fylgt. Það réttasta hefði verið að miða þetta við nettótekjur eða skattskyldar tekjur. Þá væri hægt að finna eitthvert sanngjarnt hlutfall milli þessa manns og annars, sem engan hefir fram að færa. En verði þetta ákvæði samþ., þá er með því stefnt að því að níðast á þeim, sem hafa marga fram að færa. Ég mun því að sjálfsögðu, enda þótt ekki fáist fullkomið réttlæti með brtt. n., greiða atkv. með henni. Hún er þó dálítil leiðrétting á frv.