22.04.1940
Neðri deild: 47. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (1818)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Í sambandi við þetta hámark, sem samþ. var hér í Nd., en Ed. hefir nú breytt, þá sé ég, að hér er fram komin brtt. frá meiri hl. fjhn., sem líkist þeirri brtt., sem var samþ. hér við 3. umr. Ég ætla nú ekki að orðlengja um nauðsynina á því, að sett sé hámark fyrir því, hverjir eigi að fá þessa dýrtíðaruppbót, og heldur ekki að minnast á það, sem ég hefi oft sagt hér áður viðvíkjandi nauðsyninni á því, að Alþ. gerði eitthvað til að tryggja betri hag alþýðu manna, en um það eru menn ekki eins samtaka og um það að bæta hag hálaunamannanna, eins og sýnt hefir sig áþreifanlega í dag viðvíkjandi togaraeigendum, þar sem búið er að koma fyrir kattarnef till. um það, að þeir borgi útsvör til bæjar- og sveitarfélaga. Ed. hefir sýnt hug sinn í garð hálaunamannanna, þar sem hún hefir fellt burt ákvæði það, sem sett var inn í þessari d., að af launum yfir 8 þús. kr. á ári skyldi ekki greidd dýrtíðaruppbót.

Ég ætla ekki að orðlengja um þetta, því að það duga ekki mikið rökræður við hv. þm. viðvíkjandi þessum atriðum. En það er eitt atriði, sem þarf að laga í till. á þskj. 545 í sambandi við 8 þús. kr. hámarkið. Í till. þarf að koma greinilega fram, að ætlazt sé til, að það séu 8 þús. kr. eftir núgildandi verðlagi eða sú upphæð, sem til þess svarar síðar, ef verðlag fer hækkandi. Ég býst ekki við, að það sé meiningin hjá hv. flm. till., að svo framarlega sem dýrtíðin vex á næstu árum og 8 þús. kr. koma kannske til með að samsvara 5–6 þús. kr., þá eigi embættismennirnir að missa dýrtíðaruppbót fyrir þetta bil. Ég vil því leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. um þetta og biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni. Till. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Á eftir orðunum „8000 krónum“ í 2. málslið komi: eftir núgildandi verðlagi eða þeirri upphæð, sem til þess svarar síðar.“

Ég álít rétt, að það komi þarna fram, sem mér hefir skilizt, að meiningin væri með þessari till.

Viðvíkjandi 2. brtt., þar sem lagt er til, að ríkisstj. sé heimilað að fella niður að nokkru eða öllu leyti verðlagsuppbótina, þá vil ég lýsa því yfir, að ég er á móti þeirri brtt. Ég er einnig á móti því frv., þar sem lagt er til, að ríkisstj. sé heimilað að fella niður 35% af ýmsum lögbundnum gjöldum. Ég álít, að Alþ. eigi sjálft að ráða fjármálunum, en vald ríkisstj. eigi í engu að vera meira en góðu hófi gegnir. Ríkisstj. hefir fullkomlega sýnt það undanfarið, að þegar henni þykir mest við liggja, þá skirrist hún ekki við að gefa út bráðabirgðal. eða á einhvern hátt að knýja fram það, sem henni þykir mest þörf á.

Ég er því á móti því, að ríkisstj. sé gefin heimild í þessum efnum. Ég tel nauðsynlegt í þessu sambandi, að Alþ. gangi frá því, áður en því verður slitið, hvað það vill leggja fyrir ríkisstj. að gera í atvinnu- og fjárhagsmálum þjóðarinnar, en skiljist ekki þannig við vandamálin, að ríkisstj. geti farið hverju því fram, sem hún vill vera láta.

Viðvíkjandi hámarkinu, 8 þús. kr., þá vil ég að lokum segja, að ég álít, að það nái ekki nokkurri átt annað en sú till. verði samþ. og Alþ. gangi þannig frá verðlagsuppbótinni. að hún sé takmörkuð við 8 þús. kr. Ég álít, að það nái ekki nokkurri átt; eins og útlitið er nú og líkur eru til, að hin mestu vandræði vofi yfir fjölda af landsbúum, að ríkið gangi á undan í því að bæta upp laun, sem vitanlegt er að nægja mjög ríflega til þess, að menn geti sómasamlega séð fyrir sér og sínum.

Hinsvegar vil ég geta þess um leið, að ég álít, að Alþ. geti ekki látið staðar numið í því að takmarka þetta við sína eigin embættismenn, að þeir skuli ekki fá dýrtíðaruppbót á laun, sem eru yfir 8 þús. kr. á ári, heldur þurfi að halda lengra, svo að á öðrum eins erfiðleikatímum og nú eru haldist engum manni uppi að hafa svo há laun og tíðkazt hefir undanfarið, eða kannske 10–20 þús. kr. á ári.