22.04.1940
Neðri deild: 47. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (1822)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Jón Pálmason:

Í sambandi við það, sem hæstv. fjmrh. sagði um 1. till. meiri hl. fjhn., að það væri svo mikill ágreiningur milli d. um hana, að það liti út fyrir, að frv. yrði að fara í Sþ., ef hún yrði samþ., þá verð ég að segja, að ég sé enga ástæðu fyrir okkur, sem höfum þá skoðun, að það sé í alla staði sanngjarnt að setja hámark að því er þetta snertir, að slaka til með þá skoðun, þótt það hafi sýnt sig, að meiri hl. hv. Ed. er því fylgjandi að hafa þetta takmarkalaust eins og það er í frv.

Ég verð að segja, að mér finnst það tæplega sæmandi eins og nú standa sakir, að maður, sem hefir 20 þús. kr. laun á ári, fái verðlagsuppbót af 7800 kr., eins og gert er ráð fyrir í frv. Ég held þess vegna, að það sé ástæðulaust fyrir okkur, sem teljum eðlilegt, að hámark sé sett, að slaka nokkuð til í þessum efnum.

Viðvíkjandi hinu atriðinu, að okkur ætti að vera fullnægt með því að fá síðari brtt. samþ., sem er heimild fyrir ríkisstj. að lækka þessa uppbót eða fella hana niður, þá er það að nokkru leyti rétt og að nokkru leyti ekki. Það er að því leyti rétt, að við getum að sjálfsögðu treyst því, að ef til vandræða horfir, þá muni stj. nota þessa heimild, sem þar er, en það er að því leyti ekki rétt frá mínu sjónarmiði, að ég tel eðlilegra að slá því föstu, að ekki sé greidd verðlagsuppbót á hærri laun en samkvæmt fyrri till. er tilgreint. En annars vil ég ítreka það, að ég tel, að miklu skipti að það komi fram, að það sé vilji fyrir því, að þessi heimild sé notuð, áður en notuð er heimild til niðurskurðar á verklegum framkvæmdum, sem miða að því að halda uppi vinnu fyrir það fólk í landinu, sem annars hefði hana ekki, og ég vil mega vona, að hæstv. ríkisstj. fari þá leið, ef til vandræða kemur.

Ég mun ekki ræða frekar um þetta nema sérstakt tilefni gefist, en vonast eftir að þessi till. okkar í fjhn. um 8 þúsund kr. hámark nái samþykki, þar sem hún er í samræmi við það, sem áður hefir verið samþ. hér í deildinni.