23.04.1940
Sameinað þing: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (1836)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

Páll Zóphóníasson:

Ég hefi ekki blandað mér mikið inn í þetta mál, og skal ekki heldur gera það nú. Hinsvegar virðist mér, að ennþá séu ýmsir gallar á frv., sem gera það erfitt í framkvæmdinni. Mig langar þess vegna að heyra um það frá þeim, sem helzt hafa staðið að þessu máli, og þá sérstaklega hæstv. fjmrh. og skrifstofustjóra hans, sem báðir eiga hér sæti, hvernig þeir hafi hugsað sér framkvæmd þess máls. Það er mælt svo fyrir í 2. gr., að verðlagsuppbót megi ekki greiða á hærri laun en 8000 krónur. Hinsvegar er svo fyrir mælt í 8. gr., að verðlagsuppbót skuli greidd mánaðarlega eftir á. Nú eru allmargir af starfsmönnum ríkisins, sem hafa aukavinnu, sem hér á að taka til greina. Sumar þessar greiðslur koma hinsvegar ekki fyrr en í einu eftir árið. Ég hefi í huga ákveðinn mann, sem fær greiddar rétt eftir áramótin 2000 krónur. Þessi maður kemst að viðbættum þessum 2000 kr. yfir hámarkið. Nú er búið að greiða þessum manni uppbót á launin allt árið mánaðarlega. Hvernig á að fara að í þessu tilfelli? Nú er talað um það í 1. gr.. að leggja skuli til grundvallar síðasta skattaframtal. Það þýðir oft tveggja ára gamalt skattaframtal. En það getur nú margt breytzt á skemmri tíma. Ég held, að ef þetta væri samþ., þá þyrfti að breyta 8. gr. á þann hátt, að greiða alla uppbótina eftir á eftir árið. Ég er líka viss um, að það fyrirkomulag er alveg eins heppilegt fyrir menn. Menn geta því látið þetta ganga upp í skatta og önnur opinber gjöld. Annars skal ég ekki ræða þetta frekar. Ég hefi leitt þetta mál hjá mér, en mér virðist þetta vera alveg óframkvæmanlegt og langar að vita, hvernig hæstv. fjmrh. hugsar sér að framkvæma það.